Skaðleg áhrif reykinga á heilsufar hafa verið vanmetin

MIÐALDRA karlar sem að staðaldri reykja pakka eða meira af sígarettum á dag stytta meðalævina um 13 ár en miðaldra konur um 10 ár. Þegar reykingavenjur eru kannaðar eingöngu í upphafi rannsóknar leiðir það til verulegs vanmats á skaðsemi reykinga um 15–40%. Þetta kemur fram í niðurstöðum hóprannsóknar Hjartaverndar sem birtar eru í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.

Rannsóknin sýnir að venjulega aðferðin við mat á áhættu reykinga, þ.e. að ákvarða reykingaflokk eingöngu með einni upphafsrannsókn og fylgja síðan rannsóknarhópnum eftir með tilliti til sjúkdóma og dauða í einhvern árafjölda, leiðir til verulegs vanmats á áhættu reykinga. Þetta er sérstaklega áberandi varðandi heildardauða og krabbameinsdauða. 

Höfundar greinarinnar benda á að í flestum framsýnum hóprannsóknum sem kannað hafa áhrif reykinga hafa þátttakendur verið flokkaðir eftir reykingavenjum eingöngu í upphafi rannsóknartímabilsins. Þannig rannsókn leiðir óhjákvæmilega til vanmats á skaðsemi  reykinga, þar sem hluti þátttakenda breytir um reykingavenjur á rannsóknartímanum, en hversu mikið hefur verið óþekkt.

Þátttakendur í rannsókn Hjartaverndar voru tilviljunarúrtak 2.930 karla og 3.084 kvenna  sem voru á aldrinum 34–61 árs í upphafi rannsóknarinnar og voru boðaðir til rannsóknar í Rannsóknarstöð Hjartaverndar, fyrst á tímabilinu 1967–1972 og aftur 1979–1991 og síðan fylgt eftir til ársloka 2001. Endapunktar voru klínískur kransæðasjúkdómur, kransæðastífla, krabbameinsdauði og heildardauði. Áhætta var reiknuð fyrir sérhvern reykingaflokk þegar  hann var ákvarðaður með báðum heimsóknunum en einnig ef flokkunin byggðist eingöngu á fyrri heimsókninni. 

Í greininni í Læknablaðinu er lýst áhættu fyrir öll dauðsföll, kransæðasjúkdóm, kransæðastíflu og krabbameinsdauða er fylgir mismunandi reykingavenjum ákvörðuðum með grunnrannsókn og aftur 15–19 árum síðar. 

Munur á áhættu karla og kvenna Áhætta er samkvæmt rannsókninni minnst meðal þeirra sem voru hættir að reykja við fyrri komu. Þeir sem hættu eftir fyrri komu voru í næstminnstri áhættu, því næst pípu-/ vindlareykingamenn en mest áhætta var meðal sígarettureykingamanna. Það var nokkur munur á áhættu vegna reykinga meðal karla og kvenna. Meðal karla virðist hámarksáhættu vegna sígarettureykinga þegar vera náð við 15 sígarettur á dag því ekki verður marktæk hækkun á áhættuhlutfalli við meira en 15 sígarettur á dag þótt hækkunin sé nokkur. Einnig er athyglisvert að áhættan á kransæðasjúkdómi minnkar ekki eins mikið hjá konum og körlum þegar þær hætta að reykja milli fyrri og seinni heimsóknar. Áhættan á krabbameinsdauða er meiri meðal karla en kvenna. 

Rannsóknin leiddi í ljós að verulegt vanmat var á styttingu á ævilíkum sem reykingar valda ef aðeins var miðað við reykingavenjur við fyrri heimsókn. Meðal karla er þetta vanmat fjögur ár hjá þeim sem reykja 15 sígarettur eða fleiri á dag, fimm á meðal þeirra sem reykja  minna en 15 á dag og fjögur ár meðal pípu-/vindlareykingamanna. Meðal kvenna er þetta vanmat minna en hjá körlum, eitt ár hjá þeim sem reykja 15 sígarettur eða meira á dag en tvö ár hjá þeim sem reykja minna en 15 á dag.  

Viðbótaræviárum fjölgar mjög þegar fólk hættir reykingum. Þetta sést bæði meðal þeirra sem hættu að reykja milli fyrri og seinni heimsóknar og hjá þeim sem voru hættir að reykja við fyrri heimsókn, en hjá þeim voru ævilíkur því sem næst þær sömu og meðal þeirra sem aldrei höfðu reykt.  

Í þessari rannsókn Hjartaverndar hefur sýnt sig að þeir sem hætta reykingum minnka áhættuna sem þeim tengist verulega, segir í grein Læknablaðsins. Morgunblaðið þriðjudaginn 4. apríl 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *