Ásgeir Jónsson fjallar um læknisþjónustu við hjartasjúklinga

STUTT er síðan nefndarálit sk. Jónínunefndar „Hver geri hvað í heilbrigðisþjónustunni“ leit dagsins ljós. Ein hugmynd sem þar var reifuð var að létta mætti kostnað ríkisins og stytta biðlista eftir þjónustu með því að hinir efnameiri gætu keypt sig fram fyrir biðlista með því að borga þjónustuna að fullu sjálfir. Undirtektir þingmanna voru vægast sagt litlar. Reyndar svo litlar að þingmenn allra flokka höfnuðu tvöföldu heilbrigðiskerfi. Heilbrigðisráðherra sá um jarðarförina og sagði „tvöfalt heilbrigðiskerfi, nei takk og  amen“.

Þrautaganga efnaminni hjartasjúklinga Nú hefur sami ráðherra með reglugerð grafið hugmyndina, sem varla var kólnuð, upp aftur. Þetta tvöfalda kerfi gildir reyndar enn sem komið er einungis fyrir hjartasjúklinga. Efnaminni hjartasjúklingar þurfa nú að panta tíma hjá heimilislækni og fá hjá honum tilvísun. Síðan þurfa þeir að borga þjónustuna að fullu hjá hjartalækninum. Fá þar  reikning fyrir þjónustunni sem þeir síðan framvísa hjá Tryggingastofnun sem svo endurgreiðir hluta reikningsins. Sem sagt þrjár ferðir í stað einnar með þeim kostnaði og fyrirhöfn sem því fylgir. Og til að bæta gráu ofan á svart mega bara heimilislæknar vísa á hjartalækna. Af hverju ekki aðrir læknar sem mjög oft leita til okkar með vandamál sinna skjólstæðinga? Hinir efnameiri geta fengið þjónustuna fljótt, samdægurs ef þarf.

Meingallaður samningur hjartalækna Það er rétt að rifja upp af hverju svona er komið fyrir hjartasjúklingum. Hjartalæknar voru með samning við Tryggingastofnun sem gilda átti til 2008. Ákveðinn einingafjöldi eða upphæð kom í hlut hjartasjúklinga sem áætlað var að duga myndi fyrir þjónustunni. Af fjölmörgum ástæðum, s.s. hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar og fjölgun  hjartasjúklinga, nægði sú upphæð engan veginn á síðasta ári. Þess vegna unnu hjartalæknar í þágu skjólstæðinga sinna án greiðslu frá TR í nóvember og desember á síðasta ári. Þörfin er enn að aukast og í ár hefðu hjartalæknar verið án greiðslu frá TR í 3-4 mánuði. Öllum er ljóst að hjartalæknar geta ekki tekið á sig skuldbindingar TR með þessum hætti til frambúðar. Samningar stóðu mánuðum saman áseinni hluta síðasta árs. Þegar séð varð að samninganefnd TR hafði ekki umboð til breytinga eða lagfæringa á samningnum óskaði ég, fyrir hönd hjartalækna, eftir viðtali við heilbrigðisráðherra. Það viðtal fékkst aldrei þrátt fyrir ítrekaða ósk. Upp úr samningum slitnaði svo í lok árs og því sögðu hjartalæknar upp samningnum.

Tilvísanir – verra og dýrara kerfi Erfitt er að spá í hvað vakir fyrir ráðherra með þessari reglugerð. Hún segir að heimilislæknar eigi að geta séð um einfalt viðtal og skoðun hjartasjúklinga og tekið  hjartarit. Er það stefna heilbrigðisráðherra að flytja sérfræðiþjónustuna til grunnþjónustunnar? Ætti það þá ekki að gilda um allar sérgreinar ef þetta eru rökin fyrir tilvísunarkerfi? Hvað á ráðherra við með þeirri fullyrðingu í blaðaviðtali að heimilislæknar eigi að geta leyst vanda hjartasjúklinga að talsverðu leyti? Er það nóg? Frjálst aðgengi sjúklinga til sérfræðilækna hefur tíðkast um langt árabil og gefist vel. Þjónustan er ódýr og markviss. Tilvísanakerfið kemur til með að auka kostnað verulega. Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans frá 2004 (nr. C04:06) er heildarkostnaður við komu til heimilislæknis og sérfræðings mjög svipaður. Þannig tvöfaldast kostnaður þjónustunnar þegar hjartasjúklingur þarf fyrst að fara til heimilislæknis og síðan til hjartalæknis.

Tryggingar hjartasjúklinga Mér vitanlega eiga hjartasjúklingar ekki í neinum deilum við sitt tryggingafélag sem er Tryggingastofnun ríkisins. Það er því furðuleg ráðstöfun að láta deilu verktaka við tryggingafélagið bitna á þeim sem síst skyldi, þ.e. hjartasjúklingum. Ég tek undir það sem ráðherra sagði fyrir hálfum mánuði. Tvöfalt heilbrigðiskerfi – nei, takk. Höfundur er hjartalæknir. Morgunblaðið miðvikudaginn 5. apríl 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *