Varhugaverð reglugerð

Stjórnir SÍBS og Hjartaheilla mótmæla harðlega ákvæðum reglugerðar frá 31. mars, 2006 um tilvísunarskyldu til greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga í hjartalækningum.

Jafnframt er eindregið hvatt til að gengið verði til samninga við sjálfstætt starfandi hjartalækna nú þegar.

Þessi áskorun var send heilbrigðisráðherra og öðrum viðkomandi 6. apríl s.l.

Hér á eftir fer rökstuðningur formanna félaganna fyrir málinu:

Ofangreind reglugerð hefur það í för með sér að ef sjúklingur vill fá heimsókn til hjartasérfræðings greidda þarf hann fyrst að heimsækja heimilislækni. Hann metur þörf viðkomandi sjúklings fyrir aðstoð hjartasérfræðings og gefur út tilvísun ef hann telur að þörf sé á heimsókn til sérfræðingsins. Ef sjúklingurinn fer hinsvegar beint til sérfræðings þarf hann að greiða heimsóknina að fullu sjálfur.

Við teljum að öryggi hjartasjúklinga geti verið stefnt í hættu með tilkomu reglugerðarinnar. Þá skapast af þessari breytingu óhagræði þar sem heimilislæknirinn verður milliliður yfir í heimsókn til hjartasérfræðings. Í þessu sambandi má benda á að margra daga bið getur verið á viðtalstíma hjá heimilislækni og nokkuð skortir á að allir hafi heimilislækna. Þá teljum við hættu á að framkvæmd reglugerðarinnar leiði af sér kostnaðarauka bæði fyrir sjúklinga og ríkisvaldið.

Stór hluti samskipta hjartalækna og sjúklinga þeirra felst í reglubundnu og nauðsynlegu eftirliti án milligöngu annarra lækna. Reglugerðin er hamlandi fyrir þessi samskipti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *