Þórhallur Hróðmarsson fjallar um tilvísunakerfið og hjartalækna

ÉG ER ekkert sérstaklega hress með að það skuli vera búið að taka upp tilvísanakerfið upp að nýju, hvað varðar hjartalækna. Ég held að gamla tilvísanakerfið hafi verið á, þegar ég fór að finna fyrir hjartaönginni.

Það kann margt að vera breytt síðan þá, t.d. gat maður þá fengið tíma hjá heimilislækni samdægurs. Nú telst maður heppinn, ef maður fær tíma í vikunni og sumir hafa engan. Það kann líka að vera að heimilislæknar séu meðvitaðri um þennan sjúkdóm nú en þeir voru þá.

Ég ímynda mér að það sé lítill sparnaður fólginn í þessu afturhvarfi, nema menn deyi á meðan þeir bíða eftir að komast til sérfræðingsins, vegna þess að viðtalið hjá heimilislækninum hlýtur líka að vera niðurgreitt af ríkinu.

Ég væri dauður, ef ég hefði ekki fyrir tilviljun dottið út úr gamla tilvísanakerfinu. Forsaga málsins er sú að ég fór til heimilislæknisins míns með þá ættarsögu að faðir minn hefði orðið bráðkvaddur á leið heim úr vinnu, þegar hann var 45 ára gamall. Ég sagðist reykja pípu og hefði gengið um gólf heila nótt, drekkandi kalt vatn og étandi aspirín, viðþolslaus af kvölum. „Hvað reykir þú mikið?" spurði læknirinn. Þegar ég svaraði 1-2 tóbaksbréf á viku, sagði hann: „Þetta eru ósköp hóflegar reykingar og ég hef enga trú á að þetta sé kransæðastífla, verkurinn sem fylgir henni er svo sár að það fer ekkert á milli mála, ef um slíkt er að ræða."

Hann gaf mér eitthvað bólgueyðandi og sagði mér að fara í heitt bað.

Verkurinn fór svo að gera vart við sig, þegar ég gekk milli húsa í nágrenni heimilis míns, svo ég pantaði aftur tíma hjá heimilislækninum. Heimilislæknirinn var í sumarleyfi, en á stofunni var elskuleg stúlka (kandídat í afleysingum).Þótt ég væri þá ásjálegri en ég er nú, held ég ekki að það hafi ráðið því að hún háttaði mig úr að ofan og reyndi að taka af mér hjartalínurit með tækjum,sem reyndust svo ekki í lagi. Blessuð stúlkan mælti með því að ég færi í skoðun hjá Hjartavernd, sem ég og gerði. Þar gekkst ég undir ýmis próf og þótt ég lýsti verknum, sem ég fékk við að ganga þangað frá staðnum, þar sem ég fór úr rútunni, fékk ég bara tilmæli um að fara mér hægar og borða ekki nema tvö egg á viku. Þarna enduðu mínir tilburðir til að fá bót á meininu. Sem betur fer (a.m.k. fyrir mig) átti ég kunningja, sem þekkti hjartalækni og pantaði hjá honum tíma fyrir mig.Læknirinn hlustaði á mig, hlustaði mig, skoðaði og tók hjartalínurit. Hann skoðaði hjartað í einhverju ómtæki, sem vafalaust gaf ekki eins góða mynd og það sem völ er á í dag. Að skoðun lokinni sagði hann: „ Ég veit ekki hvort þetta er kransæðastífla, en á meðan við vitum ekki hvað þetta er, skulum við reikna með að svo sé." Hann sendi mig heim með pillur til að minnka álag á hjartað og vottorð um að ég yrði ekki vinnufær fyrsta kastið. Í framhaldi fór ég á biðlista í hjartaþræðingu. Ég er einn af þeim heppnu, sem ekki dóu á þeim biðlista.

Þegar röðin kom að mér í þræðinguna var ég lagður inn á Landakot til undirbúnings, m.a. var rakaður á mér nárinn (það þarf maður nú að gera sjálfur). Þar hitti ég stúlkuna, sem reyndi að taka af mér hjartalínuritið forðum. Hún mundi eftir mér og sagði: „Þetta hefur þá verið kransæðastífla." Mér þykir alltaf vænt um hana síðan, þótt ég sé ekki viss um að ég mundi þekkja hana aftur, þótt ég mætti henni á götu.

Niðurstaðan úr þræðingunni var að þessar þrjár aðalgreinar kransæðanna voru 92%, 85% og 75% stíflaðar. Í framhaldi af þessu fór ég í hjáveituaðgerð. Síðan hef ég einu sinni farið í þræðingu, sem sýndi að mínar eigin kransæðar væru alveg lokaðar, en hjáveitan virkaði enn.

Undanfarið hef ég farið til hjartalæknisins míns tvisvar sinnum á ári. Þegar ég kveð hann, nestar hann mig með blóðprufubeiðni og lyfseðlum fyrir 9 lyfjum, til að lækka blóðfitu, kólesteról og blóðþrýsting, víkka æðarnar o.fl. (allt niðurgreitt). Ég á hjá honum tíma kl. 14.20 miðvikudaginn 27. september 2006. Fyrir þann tíma þarf ég að fara í blóðprufu og niðurstöður hennar verða sendar til hans (ég veit ekki hvort þessi sýnataka verður  niðurgreidd).

Nú reikna ég með að samkvæmt nýja kerfinu sé rétt að ég fari til heimilislæknisins áður en að þessu kemur og fái hjá honum beiðni um blóðprufu, svo að hann fái a.m.k afrit af niðurstöðum fyrrgreindrar blóðprufu. Ef hann telur sig geta á fullnægjandi hátt lesið úr niðurstöðunum og ávísað bestu fáanlegu lyfjum á grundvelli þess, fæ ég varla tilvísun til hjartalæknisins.

Lái mér hver sem vill, þótt ég treysti best lækni sem ég þekki og hefur þar á ofan bjargað lífi mínu einu sinni.

Ef heimilislæknirinn neitar mér um tilvísun, finnst mér ég aðeins hafa um tvo kosti að velja; að hafa með mér hafnaboltakylfuna í næstu heimsókn eða að greiða fullan kostnað af heimsókn til hjartalæknisins, sem ég ætti að geta ráðið við).

Ég tel mig samt heppinn að vera í hópi þeirra sem eiga þess kost að hverfa snögglega úr þessum heimi í stað þess að þurfa að veslast upp á löngum tíma við ófullnægjandi aðbúnað, hrelldir af áróðri um að þeir hafi ekki unnið fyrir því litla sem þeir fá. Morgunblaðið laugardaginn 8. apríl 2006.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *