Leiðir ný reglugerð til tvöfalds heilbrigðiskerfis?

AÐEINS tíu dögum eftir að nýr heilbrigðisráðherra hafði „jarðað“ umræðu um hvort vel stætt fólk gæti keypt sig fram fyrir biðraðir í heilbrigðiskerfinu hafði sami ráðherra sett upp tilvísanakerfi á hjartalækna, kerfi sem margir telja að feli í sér tvöfalt heilbrigðiskerfi. Þetta kemur fram í pistli Elsu B. Friðfinnsdóttur, formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, á heimasíðu félagsins þar sem hún fjallar um nýja reglugerð um starfsemi hjartalækna.

Hún sér fleira neikvætt en jákvætt við tilhögun ráðherrans og bendir á að þeir sem minni efni hafa verði nú fyrst að leita til heilsugæslulæknis sem meti hvort viðkomandi fái tilvísun á hjartalækni og þar með þá niðurgreiðslu sem ráðherra mun ákveða með reglugerð. 

Efnaminni þurfa að borga meira en áður Elsa gerir ráð fyrir að heilsugæslulæknar hafi ekki tíma til að taka á móti þeim mikla fjölda sem leitar til hjartalækna ár hvert. Líklegt sé að auka þurfi mannaflann í heilsugæslunni vegna  þessarar þjónustu, sem kosti sitt.  

„Kostnaður vegna skoðunar og greiningar mun einnig aukast hjá hluta sjúklinganna frá því sem nú er því aukakomugjald verður greitt og jafnvel gjöld fyrir rannsóknir sem leiða má líkum að verði í einhverjum tilfellum tvíteknar. Þeir efnaminni sem leita til heilsugæslunnar en er síðan vísað til hjartalækna munu þannig þurfa að borga meira en áður þegar upp er staðið,“ segir Elsa. 

Hún segir greiðslukerfið sem ráðherra setti á varðandi hjartalækna sambærilegt því sem gildi um tannlækna. Hjartalæknarnir muni ákveða sína gjaldskrá, endurgreiðslur verði samkvæmt  reglugerð og óljóst sé hvað sjúklingurinn greiði þegar upp er staðið.  

„Þeir betur stæðu munu í öllu falli geta farið beint til hjartalæknanna, fengið strax sérhæfða þjónustu, rannsóknir eins og ómun, áreynslupróf, sneiðmyndatöku o.fl. Þeir munu fara út úr röðinni og greiða sjálfir allan kostnaðinn. Var einhver að tala um tvöfalt heilbrigðiskerfi?“ spyr Elsa.  

Hún segir að unnið sé að frumvarpi til að skjóta lagastoðum undir umrædda reglugerð þar sem hún standist sennilega ekki lög. „Því  miður virðist því sem viðbrögðin við þeirri stöðu sem komin var upp eftir að hjartalæknar sögðu sig af samningi, hafi verið fálmkennd og ekki nægilega ígrunduð. Þannig fer oft ef menn leyfa sér ekki að hafa opna umræðu meðal þeirra sem málið varðar, áður en endanleg ákvörðun er tekin,“ segir Elsa og bætir við að sú litla umræða sem fram fari um heilbrigðismál hér á landi sé alltof oft yfirborðskennd. 

Frasar þagga niður umræðu Frasar eins og „besta heilbrigðiskerfi í heimi“ séu gjarnan notaðir til að þagga niður allar  gagnrýnisraddir en unnt sé að „jarða“ þennan frasa eftir umfjöllun undanfarinna daga um öldrunarþjónustuna og fund hjúkrunarfræðinga Landspítalans.  

Elsa spyr hvernig það geti t.d.  viðgengist að sjúklingar séu í öndunarvél lengur en nauðsyn krefur vegna skorts á  hjúkrunarfræðingum eða að sjúklingar séu útskrifaðir of snemma af gjörgæslu á almenna deild. 

„Ég þori að fullyrða að hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk hér á landi er á heimsmælikvarða.Það gerir sitt besta til að tryggja gæða heilbrigðisþjónustu. Kerfið aftur á móti – það þarfnast gjörgæslu.“ Morgunblaðið fimmtudaginn 13. apríl 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *