Hjartavernd fær rúmlega 60 milljóna króna styrk til rannsókna á sambandi þögulla hjartadrepa, sykursýki og æðasjúkdóma í augnbotnum.
Nýlegar rannsóknir Hjartaverndar í samvinnu við Öldrunarstofnun Bandaríska Heilbrigðisráðuneytisins (National Institute on Aging) og Hjarta, Lungna og Blóðsjúkdómarannsóknastofnunar Bandaríska Heilbrigðisráðuneytisins (National Heart, Lung and Blood Institute) hafa leitt í ljós að þögul hjartadrep eru umtalsvert algengari í öldruðum en áður hefur verið talið og fjöldi einstaklinga hefur fengið kransæðastíflu án þess að hafa nokkra hugmynd um það sjálfir.
Ljóst er að þetta getur haft afgerandi áhrif á þróun hjartabilunar sem er það heilsufarsvandamál í öldruðum sem vex hvað hraðast og dregur á lúmskan máta umtalsverðan fjölda einstaklinga til dauða á hverju ári auk þess að valda miklum óþarfa þjáningum og að vera einn af kostnaðarsamari þáttum í heilbrigðisþjónustunni.
Sykursýki er einnig eitt af stærri og vaxandi vandamálum í samfélaginu sem hefur í för með sér umtalsverða skerðingu á lífsgæðum og tengingu við sjúkdóma eins og hjarta – og æðasjúkdóma sem og blindu.
Hjartavernd hefur nú gert nýjan samning við Hjarta, Lungna og Blóðsjúkdómarannsóknastofnunar Bandaríska Heilbrigðisráðuneytisins, Augnrannsóknastofnun Bandaríska Heilbrigðisráðuneytisins, (National Eye Institute) og Öldrunarstofnun Bandaríska Heilbrigðisráðuneytisins um rannsóknir á þátttakendum í Öldrunarrannsókninni þar sem beitt verður segulómun til rannsókna á hjartavöðva og sérstökum augnbotnamyndatökum til rannsókna á æðakerfi í augnbotnum.
Með nýlegri tækni í segulómun má greina hjartadrep með meiri nákvæmni en áður. Greiningaröryggi segulómunar á drepum í hjartavöðva er það hæsta sem þekkist í læknisfræði. Hjartavernd stendur hvað fremst í notkun myndgreiningar í faraldsfræði og skipar sé þar í sess með fremstu rannsóknastofnunum í heimi í rannsóknum af þessu tagi. Samningurinn hljóðar uppá rúmlega 60 milljónir íslenskra krónna.
Í ljósi þeirra uppgötvana sem þegar hafa verið gerðar með segulómrannsóknum í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar þá leikur ekki nokkur vafi á að niðurstöðurnar munu geta leitt til aukins heilbrigðis á efri árum og þar með aukinna lífsgæða með skilningi á sjúkdómum og hvernig má bregðast við þeim í tæka tíð með forvarnarstarfi.
Allar frekari upplýsingar gefur Vilmundur Guðnason forstöðulæknir Rannsóknastöðvar Hjartaverndar 5351806 eða v.gudnason@hjarta.is