Úttekt verði gerð á mistökum

ÁGÚST Ólafur Ágústsson og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um að stofnaður verði starfshópur sem geri úttekt á öryggi og mistökum í heilbrigðiskerfinu og skili tillögum til úrbóta.

Í greinargerð segir m.a. að enginn dragi í efa að öryggi sjúklinga í heilbrigðiskerfinu beri ætíð að vera í fyrirrúmi. „Í alþjóðlegum samanburði hefur íslenska heilbrigðiskerfið iðulega komið vel út. Þar er ekki síst frábæru starfsfólki og góðri menntun heilbrigðisstarfsfólks að þakka. Hins vegar er ljóst að mistök eru gerð í heilbrigðiskerfinu eins og alls staðar annars staðar þegar kemur að  mannanna verkum," segir m.a.

Í henni segir ennfremur að um 30 þúsund innlagnir hafi verið á Landspítala háskólasjúkrahúsi á síðasta ári. „Landlæknir hefur bent á að ef tíðni mistaka hér á landi er svipuð og rannsóknir sýna að hún sé víða erlendis má ætla að um 3.000 óhöpp eða misfellur hafi átt sér stað á LSH á því ári. Þar af hafi 600 þessara óhappa verið alvarleg. Samkvæmt þessari tölfræði, sem rekja má til fjölmargra erlendra rannsókna, má ætla að 180 dauðsföll á LSH árið 2005 hafi orðið vegna  óhappa og að um 90 þeirra hefði mátt koma í veg fyrir." Morgunblaðið miðvikudaginn 26. apríl 2006.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *