Engar samningaviðræður í gangi milli hjartalækna og TR

ENGIR samningafundir hafa farið fram milli samninganefnda sjálfstætt starfandi hjartalækna og Tryggingastofnunar ríkisins frá því um síðustu mánaðamót þegar uppsögn sjálfstætt starfandi  hjartalækna á samningi við TR tók gildi sem og reglugerð heilbrigðisráðherra um tilvísunarkerfi á hjartalækna til þess að sjúklingar hafi kost á endurgreiðslu.

„Það var haldinn fundur daginn áður en við gengum af samningum og þar kynnti ráðherra þetta tilvísunarkerfi með þeim orðum að ef það kæmist á væri það komið til að vera," segir Þórarinn Guðnason, formaður Félags sjálfstætt starfandi hjartalækna, og bætir við að sínu mati sé reglugerðin meingölluð þar sem hún taki  t.d. ekki tillit til þess að margir aðrir sérfræðingar en heimilislæknar, s.s. ýmsir lyflæknar og æðaskurðlæknar, þurfi oft að senda sjúklinga sína til hjartalæknis til mats.

Telur nýja kerfið í reynd munu auka heildarkostnaðinn. Aðspurður hvort ekki standi til að semja svarar Þórarinn: „Við getum ekki sóst eftir því að fara aftur inn á þann vonda samning sem við vorum að fara út af og það hefur ekki verið boðið upp á neitt annað af hálfu heilbrigðisyfirvalda. Ég verð þess hins vegar áskynja að margir sjúklingar halda að þetta sé eitthvert tímabundið ástand. Margir spyrja hvort við séum ekki að semja, en það eru engar samningaviðræður í gangi. Það er mjög mikilvægt að það komi fram að þetta mál snýst alls ekki um kaup eða kjör hjartalækna. Þetta er ekki kjaradeila, heldur hefur þetta allan tímann verið deila um það að hjartasjúklingar hafa átt rétt á of lítilli þjónustu. Við fórum af samningnum af því að við gátum ekki tekið á okkur skuldbindingar TR í þessu sambandi," segir Þórarinn og bendir á að í fyrra hafi hjartalæknar borgað hlut TR í tvo mánuði og í ár hafi stefnt í að hjartalæknar hefðu þurft að starfa án greiðslu frá TR í þrjá til fjóra mánuði.

Að sögn Þórarins er hann hræddur um að nýja kerfið muni í reynd auka kostnaðinn í heilbrigðiskerfinu til muna og vísar máli sínu til stuðnings til þess að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Ríkisendurskoðun hafi í skýrslum sínum sýnt fram á að hver koma á heilsugæslustöð kosti þjóðfélagið nánast það sama og koma til sérfræðings. „Og ef stór hluti sjúklinganna þarf fyrst að fara í gegnum heilsugæslukerfið til að sækja sér tilvísun og koma svo til okkar tvöfaldast jafnvel kostnaðurinn í versta falli. Mér finnst rétt að spyrja hvort hinn aukni kostnaður við tilvísanakerfið er ekki miklu hærri upphæð en þær 14 milljónir sem vantaði upp á samninginn árið 2005," segir Þórarinn.

Verið að tefla á tæpasta vað. Aðspurður hver reynslan af nýja tilvísunarkerfinu sé segist Þórarinn heyra frá sjúklingum að breytingin sé til hins verra. „Það er óskaplega erfitt fyrir sjúklinga, ekki síst gamalt fólk að þurfa að fara á þrjá staði, fyrst til heimilislæknis, síðan hjartalæknis og loks til TR. Þetta kostar fólk heilmikla fyrirhöfn, tíma og peninga."

Undir þetta tekur Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjóri Hjartaheilla, og segist finna fyrir mikilli óánægju með nýja tilvísunarkerfið þar sem það kosti sjúklinga mun meiri tíma, fyrirhöfn og fjármuni. Einnig segist hann vita þess dæmi að fólki hafi verið neitað um tilvísun af heimilislækni sínum. Aðaláhyggjurnar segist Ásgeir samt hafa af því að með nýja tilvísunarkerfinu sé ekki hægt að bregðast jafnskjótt við og áður, sem geti skipt sköpum. Bendir hann á að hjá Hjartaheill hafi ávallt verið hægt að útvega einstaklingum með brjóstverki tíma hjá hjartalækni ýmist samdægurs eða í mesta lagi innan tveggja daga frá því leitað er til þeirra. „Í dag þýðir þetta ekki því nú þurfa allir að fara í gegnum ákveðna síu þar sem heimilislæknar ákveða hvort viðkomandi einstaklingur á að fara til sín eða hjartalæknis," segir Ásgeir og benti á að hann hafi áhyggjur af því að oft á tíðum sé nokkurra daga bið eftir því einu að fá tíma hjá heimilislækni eða á heilsugæslu.

„Að mínu mati er verið að tefla á tæpasta vað og það stríðir að mínu viti gegn því góða heilbrigðiskerfi sem við viljum vera að státa af. Þarna er verið að stefna inn á stórhættulegar brautir," segir Ásgeir og tekur fram að félagið hafi í byrjun mánaðar óskað eftir fundi með heilbrigðisráðherra til að ræða stöðu mála, en að þeirri beiðni hafi enn ekki verið svarað. „Við erum mjög áhyggjufull út af þessu og hvetjum deilendur til að setjast að samningaborðinu og leysa þetta mál í eitt skipti fyrir öll," segir Ásgeir og bætir við: „Við erum að horfa á deilu sem varðar á bilinu 14-16 milljónir króna á ári. Ef því er deilt niður á félagsmenn Hjartaheillar, sem eru fjögur þúsund, gera það innan við fjögur þúsund krónur á hvern sjúkling. En hver einasti sjúklingur sem ekki þarf að fara í aðgerð sparar hinu opinbera hins vegar langtum hærri upphæðir," segir Ásgeir. Morgunblaðið mánudaginn 1. maí 2006.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *