Aðeins hjartasjúklingar þurfa að lúta tilvísunarkerfi.

Fyrir rúmum mánuði kom heilbrigðisráðherra  þeirri  breytingu á  að  þeir sem þurfa að leita þjónustu hjartalækna verða að borga þá þjónustu sjálfir. Til þess að fá sömu endurgreiðslu og aðrir landsmenn þurfa þeir fyrst að leita til heimilislæknis áður en þeir fara til hjartalæknis og síðan gera sér sérstaka ferð til Tryggingastofnunar til að fá endurgreiðslu. Þetta felur í sér ýmis óþægindi, m.a. bið á nauðsynlegri þjónustu. Það er mikilvægt og oft lífsspursmál að fá sem fyrst nauðsynlega læknisaðstoð. Með því að gera þessa leið erfiðari og flóknari, þá getur það því miður leitt til þess að fleiri deyi á þeirri leið.

Ef þetta er fyrsti vísir að tilvísunarkerfi fyrir alla landsmenn, þá er það skilyrði að opinber umræða fari af stað í þjóðfélaginu um slíka stefnubreytingu. Það er óverjandi  að taka upp slíkt kerfi gagnvart einum hóp í þjóðfélaginu. Þar að auki er margt sem bendir til þess að í þessu felist ekki aðeins aukinn kostnaður fyrir einstaklinganna, heldur líka fyrir þjóðfélagið.

Sú mismunun sem felst í þessu gagnvart hjartasjúklingum, getur vart staðist jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þar sem segir í 11. grein að " Við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti."   

Sem betur fer þróast læknavísindin ört og læknisþjónustan er í stöðugri framför. Engu að síður eru þær úrlausnir sem sjúklingar fá mjög misjafnar. Það er grundvallaratriði að gera eins vel og hægt er.  Heimilislæknar hafa oft haldið á lofti sínu ágæti og ætla ég ekki að gera lítið úr því. En mál sem snúast um líf fólks stoppa of oft hjá þeim. Þannig gerist það því miður að fólk deyr úr hjartasjúkdómum, eftir að hafa leitað til heimilislækna. Þannig var næstum því farið fyrir mér. Enn fleiri deyja áður en þeir ná svo langt.  Þess vegna er greiður aðgangur að hjartalæknum lífsspursmál fyrir marga. 

Í velferðarþjóðfélagi skiptir hvert mannslíf  máli. Í þannig þjóðfélagi viljum við búa. Það er mjög afgerandi stefna að bjarga hverju því mannslífi sem hægt er.

Heilbrigðisráðherra hefur því miður tekið aðra stefnu.

Deila á milli hjartalækna og heilbrigðisráðherra stafar af því að "of margir" leita til hjartalækna. Við í Hjartaheillum gleðjumst yfir aukinni þjónustu hjartalækna og auknu streymi fólks til þeirra. Hjartaheill á líka þátt í því. Við höfum boðið almenningi um allt land upp á ókeypis mælingar á blóðþrýstingi og blóðfitu. Þúsundir manna hafa nýtt sér þetta. Aðeins hérna á Vesturlandi hafa komið yfir þúsund manns í þessar mælingar. Hérna í Borgarnesi komu í fyrra um 200 manns og margir urðu frá að hverfa vegna mikillar aðsóknar. Í framhaldi af þessum mælingum hafa þeir sem hafa greinst með áhættu farið í frekari rannsóknir og straumurinn til hjartalækna hefur stór aukist. Einnig hafa margir farið beint til sérfræðings eftir að hafa haft samband við skrifstofu Hjartaheilla. Við í Hjartaheillum gleðjumst yfir þessu. Mörgum mannslífum hefur verið bjargað. Lífsgæði annarra hafa aukist. En þeir rammar sem heilbrigðisráðuneytið hefur sett hjartalæknum hafa sprungið. Mannslífin og lífsgæði fólks eru meira virði en það.

Öllum verður okkur á að taka einhverntíma rangar ákvarðanir. Það sýnir þroskamerki fólks þegar það viðurkennir mistök sín og leiðréttir þau. Ég vil því skora á  háttvirtan heilbrigðisráðherra að láta skynsemina ráða og breyta um stefnu gagnvart hjartasjúklingum.

Magnús Þorgrímsson framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi og stjórnarmaður í Hjartaheill.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *