ÁTTA sjúklingar hafa gengist undir þræðingu á Landspítala – háskólasjúkrahúsi á þessu ári sem lokar götum milli hjartagátta, en um er að ræða meðfæddan kvilla. Þræðingar þessar hófust á sjúkrahúsinu á síðasta ári og gengust þá sex sjúklingar undir slíka aðgerð.
Með því að gera aðgerðirnar hér á landi felst mikið hagræði fyrir sjúklingana og umtalsverður sparnaður við það að þurfa ekki að fara utan, segir í ársskýrslu LSH.
Götin á gáttaskilvegg eru frá fæðingu en uppgötvast ekki fyrr en síðar á lífsleiðinni, oft eftir einhvers konar heilaáfall. Venjulega lokast götin sjálfkrafa eftir fæðingu, stundum er áfram smá gat eða himna yfir því. Nauðsynlegt er að loka þessum götum af ýmsum ástæðum, segir í skýrslu LSH. Bæði getur of mikið streymt í gegnum þau, stundum geta líka farið blóðsegar frá hægra hjartahelmingi yfir í vinstri blóðrásina og t.d. valdið heilaáfalli. Í stað þess að setja fólk á blóðþynningarlyf getur verið betra að loka gatinu og það er gert með sérstöku neti. Morgunblaðið föstudaginn 5. maí 2006