
Sjúklingar fái aukinn forgang á hjúkrunarheimili. GRIPIÐ verður til margþættra aðgerða til að draga úr vanda viðvíkjandi útskriftum sjúklinga af Landspítala – háskólasjúkrahúsi (LSH) og til að leysa úr starfsmannaskorti á sjúkrahúsinu. Þetta var ákveðið á fundi Sivjar Friðleifsdóttur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og stjórnenda LSH í gær.
Ákveðið var m.a. að LSH taki upp samningaviðræður við hjúkrunarheimilin um aukinn forgang spítalans að hjúkrunarrýmum. Að sögn Sivjar er ekki enn ljóst hve mörg þessi hjúkrunarrými gætu orðið. Nú eru tólf rými laus á Grund og rými losna reglulega á öllum hjúkrunarheimilunum. LSH hefur forgang að 90% hjúkrunarrýma á Sóltúni og Vífilsstöðum. Önnur heimili hafa tekið sjúklinga af LSH í minna en 30% hjúkrunarrýma sem losna, og það þykir heilbrigðisráðherra alltof lágt hlutfall. Siv sagði að hugsanlega gæti LSH komið til móts við hjúkrunarheimilin með einhvers konar læknisþjónustu frá sjúkrahúsinu og einnig með greiðu aðgengi tilbaka þurfi sjúklingar af LSH, sem fara á hjúkrunarheimili, aftur á sjúkrahúsvist að halda. Siv kvaðst telja mikilvægt að LSH og hjúkrunarheimilin eigi gott samstarf.
Sérhæfð hjúkrunarþjónusta í heimahúsum. Einnig var ákveðið að stjórnendur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) og LSH beittu sér fyrir tilraunaverkefni um sérhæfða hjúkrunarþjónustu í heimahúsum, tengda læknisþjónustu, og legðu til hvernig heimaþjónustu heilsugæslunnar og sjúkrahússins verður best hagað. Þá munu sjúklingar verða útskrifaðir heim og fá sérhæfða þjónustu frá heilsugæslunni og sjúkrahúsinu heima, að sögn Sivjar.
Til að bæta úr manneklu á LSH var lögð áhersla á að ráða hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða frá öðrum löndum til starfa. Siv sagði nú von á um 20 hjúkrunarfræðingum, aðallega frá Danmörku, á næstunni.
„Það blasir við að þessar aðgerðir kalla á aukin útgjöld," sagði Siv. Hún sagði tölur ekki fyrirliggjandi nú um hver þau útgjöld verða. Í erindi frá landlækni, stjórnendum LSH og HH, sem rætt var við heilbrigðisráðherra í gær, kemur m.a. fram að kenna megi skorti á starfsfólki um að hjúkrunarrými eru ekki fullnýtt. Það er rakið til aðstæðna á vinnumarkaði og eins kjara starfsfólksins. Siv sagði flókið að breyta kjörum og ekki á forræði heilbrigðisráðherra, heldur þeirra sem fara með kjaramálin. „Við bindum meiri vonir við forganginn að rýmum sem losna, aukna heimahjúkrun og nýtt starfsfólk frá Norðurlöndum," sagði Siv. „Við erum að fara í markvissar aðgerðir sem Landspítalinn mun stjórna og útfæra, í samstarfi við okkur."
Siv sagði einnig að það ylli sér miklum vonbrigðum að sveitarfélögin hefðu mörg verið að draga úr félagslegri heimaþjónustu. „Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar [Þjónusta við aldraða, október 2005] að meirihluti sveitarfélaga, með 250 íbúa og fleiri, hafi dregið úr félagslegri heimaþjónustu frá 2001-2003. Þetta þykir mér mjög umhugsunarvert," sagði Siv. Morgunblaðið fimmtudaginn 18. maí 2006