
Lá í þrjár nætur á göngum LSH þar sem ekki var pláss á stofu. „Bara fyrir fullfrískt fólk að vera á göngunum" „ÞAÐ má segja að það sé bara fyrir fullfrískt fólk að vera á göngunum," segir Benedikt Gústavsson, bóndi á Miðengi, en hann þurfti að vera þrjár nætur á göngum Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) á dögunum þar sem ekki voru nein laus pláss á stofum spítalans. Talsvert hefur verið fjallað um ófremdarástand það sem ríkt hefur á LSH undanfarið, m.a. um að svokallaðar gangainnlagnir, þar sem sjúklingar liggja í rúmum á göngum spítalans, séu viðvarandi.
Benedikt var lagður inn á hjartadeild LSH við Hringbraut til rannsókna eftir að það leið yfir hann, en hann var kominn heim fyrir nokkru þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær. Hann segir sína upplifun af því að vera lagður inn á gang spítalans ekki svo slæma, en hún hafi verið öðrum erfiðari. Að jafnaði hafi verið 3-5 sjúklingar í þeirri stöðu að fá ekki pláss í sjúkrastofu meðan hann var þar.
„Þetta hrjáði mig svo sem ekki mikið vegna þess hve hress ég var, en ég vorkenndi mikið fólki sem þurfti mikla umönnun og lá á ganginum. Manni finnst það alger hörmung að fólk sem þarf aðstoð við að fara á klósettið og aðstoð við að klæða sig þurfi að liggja á ganginum. En ég vorkenni sjálfum mér svo sem ekki mikið," segir Benedikt.
Starfsfólk allt af vilja gert. Hann segist hafa verið nægilega frískur til að eyða dögunum sem hann þurfti að dvelja á spítalanum á fótum á setustofunni, en á næturnar lá hann í rúmi á ganginum. „Það eina sem ég bað hjúkkurnar um var að fá að vita hvar rúmið mitt væri þegar ég fór að sofa," segir Benedikt.
„Starfsfólkið var allt af vilja gert, það vantaði ekkert upp á það. Það var meira að segja farið að gera grín að öllu saman og spyrja mig hvar rúmið mitt væri þegar ástandið var sem verst."
Benedikt segir það mestu furðu hvernig hafi gengið að sofa á ganginum, enda alltaf eitthvað ónæði. Það sé þó ekkert ósvipað því að liggja á stofu með öðrum sjúklingi sem þurfi mikla ummönnun.
Sjúklingarnir sem voru í þessari stöðu ræddu það þó ekki mikið sín á milli þegar Benedikt lá inni, hann segir að gríðarlegt álag á starfsfólkið hafi verið rætt mun meira. „Það voru líka veikindi í gangi meðal starfsfólks þegar ég var þarna og maður var að horfa upp á sömu stelpurnar á 16-17 tíma vöktum." Morgunblaðið fimmtudaginn 18. maí 2006