Skerðing á aðgangi að þjónustu hjartalækna

SAMKVÆMT ákvörðun heilbrigðisyfirvalda 1. apríl síðastliðinn hafa heilsugæslulæknar einir heimild til að vísa sjúklingum til sjálfstætt starfandi hjartalækna.

Sjúklingar með hjartasjúkdóm verða þess vegna að panta tíma hjá heimilislækni til að fá beiðni til hjartalæknis. Eins og fram kom í grein Ásgeirs Jónssonar og Þórarins Guðnasonar í Morgunblaðinu hinn 13.5. sl., leiðir þetta til aukins kostnaðar og tímasóunar fyrir sjúklinginn og þar að auki ónauðsynlegt álag á heilsugæslustöðvar sem þegar eru undir miklu álagi og þar sem enn skortir starfskraft.

Ákvörðunin hefur líka neikvæðar afleiðingar fyrir möguleika annarra sérgreinalækna að vísa sjúklingi til hjartalæknis. Við undirrituð erum sjálfstætt starfandi taugalæknar og viljum við með þessu bréfi sýna fram á þá ókosti sem ofangreind ákvörðun hefur fyrir okkur og sjúklinga okkar. Einkenni frá heilanum og öðrum hlutum taugakerfisins stafa oft af sjúkdómum í hjarta og  æðakerfi. Svo dæmi séu nefnd orsakast um 20% heilablóðfalla af sjúkdómum í hjarta eins og hjartadrepi, hjartalokusjúkdómi eða hjartsláttartruflunum. Sjúklingar með krampaköst, svima eða aðrar tegundir truflana á meðvitund leita einnig oft til taugalæknis. Orsakir slíkra einkenna geta verið hjartsláttartruflanir, sem sumar geta verið mjög alvarlegar og leitt til hjartastopps og dauða. Það er augljóst að þessir sjúklingar verða að fá skoðun hjartalæknis en eftir 1. apríl hefur orðið alvarleg skerðing á þessum möguleika. Eftir þessa dagsetningu verðum við að vísa sjúklingi til heimilislæknis sem eftir skoðun á sjúklingnum ef til vill skrifar slíka beiðni til hjartalæknis. Þessi leið seinkar greiningu og meðferð og eykur áhættu fyrir sjúklinginn auk þess sem hún bendir til vantrausts og vanvirðingar heilbrigðisyfirvalda á þeim sem hafa þekkinguna og ábyrgðina á velfarnaði sjúklingana. Auðvitað er alltaf möguleiki á að senda sjúklinginn beint til bráðamóttöku hjartadeildar við Hringbraut og er sú leið notuð ef um bráðatilvik er að ræða.

Undirrituð hafa  fleiri áratuga reynslu af sænska heilbrigðiskerfinu sem einkennist af lítilli afkastagetu, stirðleika og miðstýringu. Ólíkt Svíþjóð hefur Ísland í mörg ár haft kosti sveigjanlegs heilbrigðiskerfis sem hefur byggt á samvinnu og gagnkvæmu trausti ríkisstofnana og sjálfstætt starfandi lækna. Höldum áfram að byggja upp þetta kerfi til betri afkasta og valmöguleika fyrir sjúklingana.

GUÐRÚN R. SIGURÐARDÓTTIR, MARTIN L. GRABOWSKI, taugalæknar. Morgunblaðið laugardaginn 20. maí 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *