Stofnun ríkisrekins lyfja­fyrirtækis er í skoðun

einar_magnusson

Stofnun ríkisrekins sjálfseignarfyrirtækis um innflutning á samheitalyfjum er nú í skoðun hjá heilbrigðisráðuneytinu vegna þeirrar fákeppni sem ríkir á samheitalyfjamarkaði á Íslandi. einar_magnussonSamheitalyf eru lyf sem ekki lúta vernd einkaleyfa og allir geta framleitt. Þau eru yfirleitt ódýrari en frumlyfin sem lúta slíkri vernd. Hlutur samheitalyfja er mjög lágur á Íslandi miðað við nágrannalöndin; um fimmtán prósent á móti 85 prósentum frumlyfja.

Fyrir tíu árum voru sett lyfjalög þar sem lyfjaverslun var gefin frjáls og einokunarstaða lyfjafræðinga afnumin. Hugmyndin var að markaðsöflin myndu taka við sér, að sögn Einars Magnússonar, skrifstofustjóra í heilbrigðisráðuneytinu, sem segir breytinguna hafa skilað ágætis árangri í fyrstu. "En markaðurinn hefur ekki verið að virka seinustu ár og sennilega er íslenski markaðurinn of lítill til að þessi samkeppni skili sér með einhverjum hætti," segir Einar.

Páll Pétursson, formaður lyfjagreiðslunefndar, segir vel hugsanlegt að ríkið fari í samkeppni á samheitalyfjamarkaði. "Ég get vel séð það fyrir mér að það verði þróunin ef aðrir fara ekki að flytja inn þessi ódýru lyf. Þá hlýtur almannaheill að krefjast þess að ríkið fari að skipta sér að því." Páll tekur fram að samkeppni á frumlyfjamarkaði sé að ganga upp og umboðsmenn frumlyfja­framleiðenda hafi staðið við sína samninga. Þar vísar Páll til samkomulags sem var gert árið 2004 við framleiðendur frumlyfja um lækkun lyfjaverðs. "En þeir sem flytja inn frumlyf hafa engan áhuga á að flytja inn samheitalyf," segir Páll.

lyfStefnumörkunarvinna með lyfjamálin í heild sinni er í gangi hjá heilbrigðisráðuneytinu í nefnd sem hefur verið að störfum í tvö ár. Áætlað er að nefndarvinnunni ljúki núna í haust. Nefndin var sett á laggirnar eftir að ríkisendurskoðun gaf út skýrslu í mars 2004 um lyfjamál á Íslandi og ákveðið var í kjölfarið að fara í stefnumörkunarvinnu og nýta þessa skýrslu. Í nefndinni situr átján manna hópur úr öllum stjórnmálaflokkum og helstu hagsmunasamtökum. Einar Magnússon, skrifstofustjóri heilbrigðisráðuneytisins stýrir nefndinni. "Það er verið að fara yfir allan málaflokkinn og reynt að ná samstöðu um málin," segir Einar. Fréttablaðið mánudaginn 22. maí 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *