Lyfjaútgjöld TR gætu lækkað um 160 milljónir með einu samheitalyfi

Ef unnt væri að bjóða blóðfitulækkandi lyfið Sivacor á sama verði hér og í Danmörku myndu lyfjaútgjöld Tryggingastofnunar lækka um 160 milljónir króna á ári. Þetta er dæmi um þann gífurlega sparnað sem ná mætti fram með fjölgun samheitalyfja á verðlagi sem væri svipað og í nágrannalöndum okkar. Stofnun ríkisrekins innflutningsfyrirtækis á lyfjum er til skoðunar í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.

Að sögn Guðrúnar I. Gylfadóttur deildarstjóra lyfjadeildar TR lækkaði lyfjakostnaður Tryggingastofnunar um 342 milljónir króna, eða 5,3%, milli áranna 2004 og 2005. "Skýringin á lækkuninni er þríþætt," segir Guðrún. "Í fyrsta lagi varð umtalsverð styrking á gengi krónunnar árið 2005 sem hafði í för með sér lækkun verðs á stórum hluta skráðra lyfja.  Í öðru lagi var gigtarlyfið Vioxx tekið af markaði síðla árs 2004 og við það dró einnig úr notkun á sambærilegum lyfjum en áætluð lækkun á kostnaði milli ára vegna þessa er um 130 milljónir króna.  Í þriðja lagi lækkaði lyfjaverð í kjölfar samkomulags heilbrigðisráðuneytisins við lyfjaheildsala og framleiðendur."

Guðrún segir að þrátt fyrir að lyfjakostnaður TR hafi lækkað haldi lyfjanotkunin áfram að aukast. Um verðmuninn á lyfjum milli landa, sem mikið hefur verið fjallað um síðustu daga, segir Guðrún að samheitalyf til sölu hér á landi séu miklu færri en í nágrannalöndunum og þau sem fáist séu margfalt dýrari en t.d. í Danmörku. "Ég nefni sem dæmi að ef blóðfitulækkandi lyfið Sivacor væri á sambærilegu verði hér og í Danmörku gæti TR sparað 160 milljónir króna  á ári og hluti hvers sjúklings myndi lækka að sama skapi um 10 þúsund krónur á ári ef miðað er við  Sivacor sem framleitt er af Actavis.  Í Danmörku eru á markaði enn ódýrari samheitalyf og við kaup á því lyfi gæti sjúklingur því sparað enn meira eða rúmlega 16 þúsund krónur á ári.  Þessi dæmi sem hér eru tekin taka mið af íslensku hámarksverði," segir Guðrún.

Fram hefur komið í fréttum að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hafi til skoðunar stofnun ríkisrekins sjálfseignarfyrirtækis um innflutning á samheitalyfjum vegna þeirrar fákeppni sem ríkir á lyfjamarkaði hér á landi. Fréttir frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *