Sjúklingar á göngum hafa tafið endurlífgun

gangu

Þess eru dæmi að endurlífgunarteymi á Landspítalanum hafi átt í erfiðleikum með að komast eftir gangi vegna þéttra raða af sjúklingarúmum á ganginum.

ganguÞetta kemur fram í inngangi nýútkominnar ársskýrslu Landlæknisembættisins fyrir árið 2005, sem Sigurður Guðmundsson landlæknir ritar. Hann segir innlagnir sjúkra á sjúkrahúsganga hafa verið eilífðarvandamál á stærstu sjúkrahúsunum í Reykjavík. Þær megi rekja marga áratugi aftur í tímann. Við liggi að heilbrigðisstarfsmenn taki þeim orðið sem náttúrulögmáli.

Síðastliðið ár hafa um 60 sjúklingar legið á göngum Landspítalans á hverjum mánuði samkvæmt atvikaskráningu þar, skrifar landlæknir. Ekki þarf að fara í graf­götur um óþægindin og vanvirðuna sem af þessu hlýst og um leið hættuna…, segir hann enn fremur og nefnir dæmin um erfiðleika endurlífgunarteymis við að komast leiðar sinnar.
Landlæknir segir þennan vanda tengjast útskriftartöfum af sjúkrahúsinu, sem aftur snerti skort á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Um 70 til 100 manns liggi á Landspítala á hverjum degi, sem ættu betur heima annars staðar.

Skammt er síðan Fréttablaðið sagði frá því að tíu pláss væru laus á elliheimilinu Grund. Hefði svo verið um skeið vegna skorts á hjúkrunarfólki. Magnús Pétursson, forstjóri Landspítalans, segir að stjórnendur spítalans og Grundar hafi átt fund um stöðu málsins. Stjórnendur Grundar hafi sagt að þeir myndu athuga hvað þeir gætu gert.

Þá er verið að vinna í því hvort Heilsugæslan og spítalinn geti lagt saman krafta sína í þjónustu við fólk í heimahúsi, segir Magnús. Þá hefur verið rætt við kragasjúkrahúsin svonefndu um hvort þau geti létt undir. Jafnframt hefur verið rætt við forsvarsmenn þessara sjúkrahúsa um hvort þau gætu tekið einhverjum af þeim langlegusjúklingum sem eru á Landspítalanum, til lengri dvalar. Það er því óhætt að segja að það sé hreyfing á þessu máli á öllum vígstöðvum, segir Magnús og bætir við að álagið á spítalanum breytist frá einum tíma til annars. Það sé eiginleiki þessarar starfsemi. Fréttablaðið fimmtudaginn 25. maí 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *