
Fjölmiðlar hafa á stundum verið of ágengir inni á sjúkrahúsum, að því er Sigurður Guðmundsson landlæknir telur. Hann hefur sent frá embættinu tilmæli um vinnureglur til stjórnenda sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana um samskipti fjölmiðla við sjúklinga.
Forstöðumenn og faglegir stjórnendur heilbrigðisstofnana bera ábyrgð varðandi aðgengi fjölmiðla að sjúklingum og upplýsingar til fjölmiðla um sjúklinga og vistmenn stofnana, samkvæmt vinnureglum landlæknis.
Ávallt skal leita samþykkis æðstu fagstjórnenda stofnunar eða þeirra sem þeir tilgreina áður en leyfi til töku viðtals er veitt inni á stofnuninni, jafnvel þótt samþykki sjúklings og aðstandenda liggi fyrir. Þar sem því verður við komið skal leitast við að slík viðtöl fari ekki fram inni á venjulegum sjúkrastofum eða göngum heldur sjúklingnum boðið að fara með fjölmiðlamanninum á afviknari stað. Sé ekki fallist á þessi skilyrði verður að tjá sjúklingi og viðtalsbeiðendum að viðtalið verði að bíða útskriftar sjúklingsins.
Landlæknir segir þessi tilmæli til komin annars vegar vegna ábendinga frá sjúklingum sem legið hafi á sjúkrahúsi undir þessum kringumstæðum og hins vegar vegna ábendinga starfsfólks og stjórnenda spítala um að leiðbeiningar skorti vegna beiðna fjölmiðla um viðtöl og upplýsingar. Visir.is fimmtudaginn 1. júní 2006.