
Sigurður Guðmundsson fjallar um lyfjaverð hérlendis: "Halda má því fram með fullum rétti að í þessu efni sé frjáls markaður að bregðast landsmönnum nema unnt sé að ráða bót á."
AÐ UNDANFÖRNU hefur talsvert verið fjallað um lyfjaverð og lyfjainnflutning hér á landi í fjölmiðlaviðtölum og blaðagreinum. Í sumum tilvikum virðist sem megininntak málsins hafi farið forgörðum og komi ekki fram. Ýmislegt hefur verið þarft gert sem stuðlað hefur að lækkun lyfjaverðs að undanförnu. Meðal annars samdi ríkið við innflytjendur lyfja árið 2004 og hefur það orðið til þess að meðalheildsöluverð og smásöluverð sömu frumlyfja hér er að verða áþekkt því sem fyrirfinnst á Norðurlöndum. Þetta er vel og ber að vekja athygli á því.
Kjarni umræðu undanfarinna daga, vikna og missera er hins vegar tvíþættur: Í fyrsta lagi snýst hann um mikinn, og að margra mati óeðlilega mikinn, verðmun á lyfjum með sama virka innihaldsefninu hér og í nálægum löndum. Í öðru lagi snýst hann um að lyf sem skráð hafa verið hér á landi eru á stundum ekki til þegar sjúklingar og læknar þurfa á þeim að halda.
1. Munur á verði frumlyfja og samheitalyfja í nálægum löndum: Með frumlyfi er átt við lyf sem þróað er af tilteknum lyfjaframleiðanda og nýtur venjulega í upphafi verndar einkaleyfis. Þegar einkaleyfi er aflétt fara oft ýmsir aðrir framleiðendur á kreik og framleiða svonefnd samheitalyf með sama virka innihaldsefni, magni og virkni og er í frumlyfinu, þ.e. eins lyf. Samheitalyf er hins vegar nær alltaf mun ódýrara en frumlyfið enda er litið svo á að einkaleyfið hafi tryggt frumlyfjaframleiðandanum tekjur á móti kostnaði við þróun og framleiðslu frumlyfsins. Lyfjainnflutningur hér á landi er að mestu bundinn við dýrari frumlyf þrátt fyrir að ódýrari samheitalyf séu á markaði í nálægum löndum. Um þetta hefur umræðan snúist hér. Á vegum Landlæknisembættisins var verðlag á allmörgum algengum lyfjum á Íslandi og í Danmörku kannað og upplýsingar fengnar úr Sérlyfjaskrá hér og úr gagnagrunni um lyfjaverð í Danmörku. Kannað var verð lyfja við beinþynningu, þunglyndi, of mikilli sýruframleiðslu í maga, hárri blóðfitu og tilteknum sýkingum. Munur á lægsta einingaverði á Íslandi og í Danmörku reyndist verulegur eða allt frá því að vera rúmlega tvöfaldur til þess að vera tæplega tólffaldur í þeim dæmum sem litið var á. Ennfremur voru tekin dæmi af fólki með ákveðna sjúkdóma sem kaupir þrjú algeng lyf á Íslandi og í Danmörku og er munurinn á kostnaði við lyfjakaupin þrefaldur til ferfaldur. Bent var á að það gæti verið hagkvæmara fyrir hið opinbera að greiða flugfar fyrir sjúklinga til Danmerkur fjórum sinnum á ári þannig að þeir gætu keypt lyfin sín þar og samt myndi sparnaður nást miðað við það sem til er kostað nú. Þetta eitt ætti að vera nóg til segja okkur að ekki sé allt með felldu.
2. Skráð lyf ekki tiltæk: Lyf sem eru á markaði á Íslandi þurfa að fara í gegnum tiltekinn skráningarferil hjá Lyfjastofnun. Skráningin er ekki með öllu fyrirhafnarlaus eins og eðlilegt er. Veita þarf tilteknar upplýsingar um ágæti og aukaverkanir lyfsins svo eitthvað sé nefnt. Lyfjainnflytjendur sjálfir sækja eftir skráningu og veita umbeðnar upplýsingar. Því ætti að vera eftir nokkru að slægjast að tryggja það að lyfin séu til. Því miður hefur það gerst alltof oft á undanförnum mánuðum og misserum að til Lyfjastofnunar og Landlæknisembættisins hafa borist kvartanir frá sjúklingum og læknum vegna þess að tiltekin skráð lyf eru ekki til þegar á þarf að halda. Dæmi eru um að fólk hafi þurft að bíða dögum saman og örsjaldan vikum saman eftir lyfjum sem ávísað hefur verið. Ekki þarf að fara í grafgötur um þau óþægindi sem þetta getur valdið, svo ekki sé tekið dýpra í árinni.
Um þetta hefur og verður umræðan um lyfjaverð og lyfjainnflutning að snúast á Íslandi. Ýmsar ástæður kunna að liggja að baki þessum vanda en nauðsynlegt er að leita skýringa. Hagsmunir sjúklinga og sameiginlegra sjóða landsmanna eru í húfi, enda greiðir Tryggingastofnun ríkisins allstóran hluta af verði flestra lyfja. Því er eftir mjög miklu að slægjast. Einnig snýr þetta að öryggi sjúklinga, lyf sem eiga að vera til verða að vera til þegar á þarf að halda. Skýringar á þessu hafa látið standa á sér, einkum virðast fulltrúar lyfjainnflytjenda og lyfsala eiga erfitt með að greina frá ástæðum ofangreinds verðmunar. Í stað þess að þeir svari með skemmtigreinum í blöðum eins og nýlegt dæmi er um er kallað eftir því að viðhlítandi skýringar komi fram. Halda má því fram með fullum rétti að í þessu efni sé frjáls markaður að bregðast landsmönnum nema unnt sé að ráða bót á. Gangi það ekki og reynist ekki unnt að ná því að auka hlut innflutnings samheitalyfja á Íslandi er vel mögulegt, eins og fram hefur komið, að skynsamlegt sé fyrir ríkið að hefja sjálft innflutning lyfja með nýrri og endurborinni Lyfjaverslun Íslands. Það yrði vissulega afturhvarf til fortíðar, en er það endilega svo slæmt? Við bíðum svara frá lyfjamönnum.
Höfundur er landlæknir. Morgunblaðið miðvikudaginn 7. júní 2006