Fór sex tíma gamall í hjartaþræðingu

marta_og_hermann

Sex klukkustundum eftir að Birkir Hermannsson fæddist á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja var hann kominn til Reykjavíkur í aðgerð vegna illvígs sjúkdóms í hjarta og nokkrum dögum síðar var hann kominn til Boston í aðra aðgerð. Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson ræddi við foreldra Birkis um þessa hröðu atburðarás.

Við sáum strax að það var eitthvað að," segir Hermann Sigurgeirsson, en sonur hans, Birkir Hermannsson fæddist með mjög alvarlegan hjartagalla. Birkir fæddist í Vestmannaeyjum en var strax sendur á Landspítalann í Reykjavík þar sem hann gekkst undir stóra hjartaaðgerð. Þegar blaðamaður settist niður með foreldrum Birkis, Mörtu Sigurjónsdóttur og Hermanni Sigurgeirssyni, voru rétt rúmlega þrjár vikur síðan Birkir fæddist.

marta_og_hermannSkömmu eftir að hann fæddist þann 14. maí kom í ljós að hann var með alvarlegan hjartagalla sem nefnist víxlun stóru slagæðanna, en hann lýsir sér þannig að blóð frá ósæð fer í hægri hluta hjartans og blóð frá lungnaslagæð fer í vinstri hluta hjartans með þeim afleiðingum að súrefnisríkt blóð fer frá hjartanu aftur inn í lungun og blátt blóð fer aftur frá hjartanu í líkamann.

"Fyrst var haldið að þetta væri einungis vatn í lungum, jafnvel að tækið sem mældi súrefnismettunina væri bilað, svo lág var hún," sagði Marta, en hún var einungis 15-20% af því sem er venjulegt. Hröð atburðarás hófst þá og sagði Hermann að læknir frá Reykjavík hefði flogið samstundis til Eyja eftir að einkennum Birkis hefði verið lýst í gegnum síma af lækni í Eyjum. Marta segir að skjót viðbrögð Þórðar Þórkelssonar, læknis, og Elínar Ögmundsdóttur, hjúkrunarfræðings, hefðu skipt höfuðmáli. "Það kom í ljós eftir að þau komu að Birkir hafði fengið heilablóðfall eftir fæðinguna sem rekja má til hjartagallans. Þetta var bara einn agnarsmár punktur á heila hans sem var á mjög öruggu svæði, ef svo má segja. Og um leið og hann var barkaþræddur fyrir flugið til Reykjavíkur þá hækkaði súrefnismettun hans upp í 60%. En hver veit hvernig heilablóðfallið hefði þróast ef læknarnir hefðu ekki komið strax."

Til Reykjavíkur innan fimm tíma Stuttu eftir að læknir og hjúkrunarfræðingur frá Reykjavík komu til Eyja var ákvörðun tekin að fljúga með Birki til Reykjavíkur og koma honum undir læknishendur þar: "Þegar við vorum komin var strax framkvæmd aðgerð til að víkka fósturæð Birkis og skömmu síðar fór hann í hjartaþræðingu," sagði Marta. Þetta gerðist allt mjög hratt: "Birkir fæddist klukkan 17:36 í Vestmanneyjum og var kominn í hjartaþræðingu á Barnaspítala Hringsins um hálfellefu um kvöldið og meðan á öllu þessu stóð var verið að undirbúa för hans til Boston" – en þar átti að framkvæmda aðgerðina þar sem æðunum yrði víxlað á rétta staði á ný.

Marta er ekki í vafa um að skjót viðbrögð hafi bjargað lífi sonar hennar. "Þetta er ótrúlegt, hvernig allir spiluðu inn í. Ef maður hugsar um þetta eftir á er ótrúlegt hvernig þetta gekk allt upp. Allir tóku réttar ákvarðanir á réttum tíma."

Á leið til Boston Eins og áður kom fram var talið nauðsynlegt á þessum tíma að fara með Birki til Boston þar sem víxla átti æðunum á ný. Marta og Hermann segja að ákvörðun um það hafi verið tekin fljótlega eftir fæðingu hans: "Það var sagt við okkur í Vestmannaeyjum að hann væri líklega með hjartagalla og hann þyrfti að fara til Boston í aðgerð. Við hváðum við enda ætluðum við bara að fæða barn og fara heim," sögðu þau í léttum tón en fjórum dögum eftir fæðingu Birkis flugu þau til Boston. Þau sögðu að flugið hefði gengið vel, tveir læknar voru með þeim í för og Birkir í hitakassa. Læknarnir hefðu séð gríðarlega vel um Birki, enda hefði hann þurft stöðugt eftirlit auk þess sem skipta þurfti reglulega um súrefniskúta. Þau segja að aðstæður og þjónusta hefðu verið gríðarlega góð, sjúkrabíll hefði flutt þau með látum á sjúkrahúsið frá flugvellinum, þrátt fyrir að sá stutti hefði verið í góðu formi og þau hefðu verið á hóteli við hliðina á sjúkrahúsinu. En vistaskiptin hefðu verið þeim gríðarleg viðbrigði: "Þetta var orðið dálítið yfirþyrmandi að fara frá smábænum Vestmannaeyjum í stórborgarlífið í Reykjavík og þaðan yfir í bandarísku stórborgina Boston! Þetta var orðið of mikið á tímabili, við komum þegar það var myrkur þar og hitinn og rakinn var gríðarlegur og heimþráin gífurleg," sagði Marta.

Aðgerðin var framkvæmd þann 19. eða degi eftir að þau komu út. Þau sögðu að aðgerðin hefði gengið vel: "Hann átti að losna af gjörgæslu eftir þrjá daga þegar hann fékk þrjú krampaköst og þá var ákveðið að halda honum lengur. Farið var með hann í heilalínurit og sneiðmyndatöku og hann fékk lyf við krömpunum og eftir það gekk honum vel að ná sér og við fórum heim eftir 10 daga veru í Boston."

Langþráð heimkoma Eftir að Birkir og foreldrar hans sneru heim til Íslands hægðist nokkuð um hjá þeim, enda hafði aðgerðin gengið framar vonum. Þó hefði verið kominn nokkur roði í skurðinn eftir aðgerðina og því verið ákveðið að fara með Birki á sjúkrahús og þau dvalið þar í nokkra daga og hann fengið sýklalyf í æð. En nú væri loks komið að heimferðinni sem stefnt hafði verið að skömmu eftir að Birkir fæddist, en þau hafa ekkert farið heim til sín síðan þá.

Marta og Hermann sögðu að þau hefðu mætt gríðarlegum skilningi hjá vinnuveitendum og öðrum íbúum Vestmannaeyja. "Allir í Vestmannaeyjum, og þá meina ég allir, eru að fylgjast með og mér hefði aldrei dottið í hug að þvílíkur samhugur gæti myndast í einu bæjarfélagi," sagði Marta og bætti við að foreldrar hennar hefðu nánast verið í fullu starfi við að taka á móti heillaóskum frá bæjarbúum. Þau tóku einnig fram að allt heilbrigðiskerfið hefði virkað gríðarlega vel, þau hefðu nánast ekki þurft að hafa neinar áhyggjur.

Marta og Hermann sögðu framtíð Birkis vera bjarta. Hann þyrfti að vera í lyfjagjöf í skamma stund og eftirliti og ekkert væri því til fyrirstöðu að hann yrði heilbrigður drengur sem spilaði fótbolta eins og Baldvin Ingi eldri bróðir hans, enda Vestmannaeyjar mikill fótboltabær. Morgunblaðið miðvikudaginn 7. júní 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *