Áhyggjur vegna stöðu hjartasjúklinga

STJÓRN Læknafélags Íslands lýsir áhyggjum sínum yfir að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherrann skuli ekki geta boðið hinum sjúkratryggðu landsmönnum þjónustu samningsbundinna hjartalækna.

"Heilbrigðisþjónusta hjartalækna er mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfi þjóðarinnar og í flestum tilvikum óhjákvæmileg þeim, sem hennar njóta. Greiðsluheimildir þær, sem ráðherrann hefur gert heilsugæslulæknum að gefa út, eru algerlega ófullnægjandi lausn á þeim vanda, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur bakað sér með samdráttaraðgerðum í þessum hluta heilbrigðisþjónustunnar. Það fyrirkomulag, sem nú er við lýði, mismunar annars vegar hinum sjúkratryggðu einstaklingum eftir sjúkdómi þeirra og auðveldar hins vegar hinum efnameiri að njóta þessarar þjónustu fyrirhafnarlítið.

Stjórn Læknafélags Íslands fer fram á það við stjórnvöld að hyggist þau koma á tvöföldu heilbrigðiskerfi, þá verði þær fyrirætlanir gerðar opinberar og ræddar undanbragðalaust með þátttöku þjóðarinnar," segir í ályktun stjórnar félagsins. Morgunblaðið fimmtudaginn 8. júní 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *