Hætta fyrir sjúklingana

Ekki er óalgent að fólk þurfi að fara á þrjá til fjora staði

Stjórn Læknafélags Íslands lýsti í gær yfir áhyggjum sínum af því að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra gæti ekki boðið landsmönnum þjónustu samningsbundinna hjartalækna. Eins og staðan er núna þurfa þeir sjúklingar sem sækja þjónustu hjartalækna að hafa tilvísun frá heimilislækni og greiða þar að auki fullan kostnað við komu, sem getur verið á bilinu 4.500-20.000 krónur. Tryggingastofnun metur síðan í hverju tilfelli fyrir sig hversu mikill hluti fæst endurgreiddur.

Sigurbjörn Sveinsson, formaður Læknafélags Íslands, segir núverandi fyrirkomulag fela í sér mikið óhagræði fyrir sjúklinga og að einnig skapist hætta á að fólk setji það fyrir sig að fara í nauðsynlegt eftirlit. "Hjartalæknar eru einu sérfræðingarnir sem þetta fyrirkomulag gildir um en til annarra sérfræðinga getur fólk farið án tilvísunar og þarf ekki að leita til Tryggingastofunar til að fá reikninginn greiddan."

Ekki er óalgent að fólk þurfi að fara á þrjá til fjora staðiSigurbjörn segir það vilja stjórnmálamanna að reka kerfið innan fastra fjárveitinga þar sem framboði á þjónustu sé stýrt, en segir jafnframt aldrei hægt að stjórna þörfinni á sama hátt.

Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjóri Hjartaheillar, segir samtökin hafa mótmælt núverandi tilvísunarkerfi og gefið út ályktun um að gengið verði til samninga við sjálfstætt starfandi hjartalækna nú þegar. "Tilvísunarskylda hjartasjúklinga er brot á jafnræðisreglunni og Hjartaheill berast daglega kvartanir frá hjartasjúklingum sem verða varir við það óhagræði sem núverandi kerfi skapar."

Ásgeir nefnir dæmi um konu sem fór með dóttur sína sem er 75 prósent öryrki til hjartalæknis og þurfti að greiða 18.650 krónur fyrir heimsóknina. Þegar kom að því að fá upphæðina endurgreidda frá Tryggingastofunun var tekið við pappírunum en þeir verða ekki endurgreiddir fyrr en skjöl frá lækninum hafa borist Tryggingastofnun.

"Eftir að kerfinu var breytt er ekki óalgengt að fólk þurfi að fara á þrjá til fjóra staði til að fá samband við hjartalækni og síðan bætist við bið eftir að fá reikninginn greiddan."

Ásgeir segist vita dæmi þess að heimilislæknar hafi neitað sjúklingum um tilvísun til hjartalæknis. "Þá getur það tekið hjartalækna langan tíma að stilla hjartasjúklinga inn á lyf og það getur verið varhugavert að heimilislæknar hrófli við samsetningu hjartalyfja." Visir.is föstudaginn 9. júní 2006 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *