Lækkun lyfjaverðs í krafti fjöldans

Eldri kona fær sér lyf

Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir að umræður meðal hagsmunaaðila öryrkja og eldri borgara um slíkt innkaupasamband hafi staðið yfir í nokkra mánuði en beðið hafi verið eftir áliti heilbrigðis­ráðuneytisins á hugmyndinni.

Nýlega kom úrskurður ráðuneytisins um að það gerði ekki athugasemdir við þessa hugmynd. Fram kom að ráðuneytið teldi að slíkt innkaupasamband myndi ekki stangast á við ákvæði lyfjalaga eða laga um heilbrigðisþjónustu enda byggi það í grunninn á samkomulagi tiltekins hóps við tiltekinn eða tiltekna lyfsöluleyfishafa.

Eldri kona fær sér lyf"Innkaupasamband felst í því að öryrkjar og eldri borgarar, sem eru í flestum tilfellum lyfja­notendur til lengri tíma, komi sér saman og knýi á um lægra lyfjaverð í krafti fjöldans. Það er ekki um það að ræða að opna apótek eða sjá um hrein og klár innkaup, heldur nýta kerfið eins og það er hér í dag," segir Sveinn. Hann áréttar jafnframt að um frjálsa aðild yrði að ræða og því ætti þetta ekki að koma til kasta Persónuverndar á þeim grundvelli að slíkt innkaupasamband gæti misnotað upplýsingar um lyfjanotkun aðila.

Á íslenskum lyfjamarkaði eru tveir aðilar ráðandi í smásölu, Lyf og heilsa annars vegar og Lyfja hins vegar. Sveinn segir að hugsanlegt sé að leitað yrði út fyrir landsteinana ef þessir aðilar verði ekki tilbúnir að veita innkaupasambandinu afslátt af lyfjum. "Einn möguleikinn er að við snúum okkur til söluaðila í Danmörku eða á Englandi til dæmis. Hér er markaður með nokkur þúsund kaupendum og möguleiki að opna verslun með viðskipti tryggð við þennan hóp sem tilheyrir þessu innkaupasambandi."
Að sögn Sveins verður núna farið að skoða möguleika á að koma þessu innkaupasambandi á fót þar sem úrskurður heilbrigðisráðuneytisins hefur borist. Visir.is föstudaginn 9. júní 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *