Hagur í lægra lyfjaverði

Margrét Guðmundsdóttir

Margrét Guðmundsdóttir fjallar um lyfjamál: "Ég vil svo taka undir áhyggjur landlæknis og annarra sem talað hafa um þann gífurlega verðmun sem er á milli samheitalyfja hér á landi og í öðrum löndum. Sá munur er algjörlega óútskýranlegur og það hlýtur að vera forgangsverkefni lyfjayfirvalda að taka á þessum mun."

Í ÁGÆTRI grein í Morgunblaðinu 7. júní síðastliðinn fjallar Sigurður Guðmundsson landlæknir um lyfjamál. Í upphafi greinarinnar rekur landlæknir þann árangur sem náðst hefur með samningum við innflytjendur frumlyfja, sem hann réttilega greinir frá að hafi "orðið til þess að meðalheildsöluverð og smásöluverð sömu frumlyfja hér er að verða áþekkt því sem fyrirfinnst á Norðurlöndum."

Margrét Guðmundsdóttir Í dag er það þannig að verð tiltekins frumlyfs fæst ekki samþykkt af íslenskum yfirvöldum nema verðið sé sambærilegt við meðalverð sama lyfs í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Þetta hafa frumlyfjaframleiðendur og íslenskir umboðsmenn þeirra undirgengist og staðið við. Það að verð á Íslandi sé sambærilegt við meðalverð í þessum þremur löndum þýðir að oftar en ekki er verð á Íslandi lægra en í einu til tveimur af þessum löndum þrátt fyrir að markaðurinn hér sé mun smærri en í viðmiðunarlöndunum. Ég vil þakka landlækni sérstaklega fyrir að hefja sína grein á að benda á þessa staðreynd.

Ég vil svo taka undir áhyggjur landlæknis og annarra sem talað hafa um þann gífurlega verðmun sem er á milli samheitalyfja hér á landi og í öðrum löndum. Sá munur er algjörlega óútskýranlegur og það hlýtur að vera forgangsverkefni lyfjayfirvalda að taka á þessum mun.

Sömu reglur fyrir alla Á íslenska lyfjamarkaðinum er 3 stærri fyrirtæki og nokkur smá. Fyrirtækin Icepharma og Vistor eru innflytjendur frumlyfja og eru í nánu samstarfi við fjölda erlendra lyfjaframleiðenda. Íslenska fyrirtækið Actavis er framleiðandi samheitalyfja og er eitt af leiðandi fyrirtækjum í heiminum á þeim markaði. Lesendum til skýringar er rétt að árétta að frumlyfjafyrirtæki eru þau fyrirtæki sem einbeita sér að þróun og markaðssetningu nýrra lyfja, en þegar einkaleyfi þeirra renna úr gildi mega samheitalyfjaframleiðendur hefja framleiðslu lyfjanna og eru þau þá með sama virka innihaldsefnið og frumlyfið. Samheitalyfjaframleiðendur þurfa því ekki að leggja í þann gífurlega kostnað sem er samfara þróun nýrra lyfja og því er eðlilegt að þeirra framleiðsla sé margfalt ódýrari en frumlyfjaframleiðenda. Menn þurfa ekki annað en að líta til Íslenskrar erfðagreiningar til að átta sig á þeirri gífurlegu fjárfestingu og áhættu sem er samfara þróun nýrra lyfja. Þess vegna eru samheitalyf um allan heim margfalt ódýrari en frumlyf sem þurfa að standa undir rannsóknar- og þróunarkostnaði.

Það hefur hins vegar viðgengist hér á Íslandi að samheitalyf hafi fengist skráð, oft aðeins nokkrum krónum ódýrari en upprunaleg frumlyf. Við sem störfum á frumlyfjamarkaði höfum í gegnum árin furðað okkur mjög á þessu fyrirkomulagi. Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir skrifar í Morgunblaðið þann 6. júní og bendir á að íslenskir samheitalyfjaframleiðendur komist upp með að selja hér lyf á tífalt hærra verði en þeir gera í nágrannalöndunum. Fyrsta skrefið í að jafna þennan mun hlýtur að vera að yfirvöld skikki samheitalyfjaframleiðendur, íslenska eða erlenda, til að undirgangast sambærilegar reglur og frumlyfjaframleiðendur, þ.e. að verðið á þeirra framleiðslu sé sambærilegt hér og í öðrum löndum.

Framboð samheitalyfja En hvernig tryggja menn framboð þessara lyfja hér á landi? Í dag eru nokkur fyrirtæki á íslenska markaðnum að flytja inn samheitalyf, auk innlendrar framleiðslu. Þó virðist úrvalið hér af samheitalyfjum, ef marka má orð landlæknis, ekki vera sambærilegt og í öðrum löndum. Ég efast um að svarið við þessari stöðu sé að ríkið taki upp eigin innflutning og sölu á samheitalyfjum. Það er kannski ekki mitt hlutverk sem forstjóra í fyrirtæki sem starfar á frumlyfjasviðinu að benda á lausnir í málefnum sem varða samheitalyf. En ég leyfi mér að velta því hér upp í umræðunni hvort íslenska ríkið geti í gegnum hina samevrópsku lyfjastofnun EMEA, sem við erum aðilar að, haft frumkvæði að breyttum reglum um skráningu samheitalyfja. Hvort þar sé hægt að skylda samheitalyfjaframleiðendur til að sækja um skráningu og þar með útvega lyf á öllu starfssvæði stofnunarinnar til að tryggja að litlir markaðir eins og Ísland verði ekki útundan þegar kemur að ódýrum samheitalyfjum.

Frumlyfjaframleiðendur og umboðsmenn þeirra hafa staðið við sínar skuldbindingar varðandi lækkun lyfjaverðs og er því nærtækt fyrir lyfjayfirvöld að beina sjónum sínum að samheitalyfjaframleiðendum og innflytjendum samheitalyfja til að halda áfram á sömu braut varðandi lækkun lyfjaverðs á Íslandi.

Höfundur er forstjóri Icepharma hf. Morgunblaðið 19. júní 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *