Mikill munur á verði lyfja

Apótek Lyfjaver

Mikill verðmunur reyndist á nikótínlyfjum í nýrri verðlagskönnun ASÍ á lausasölulyfjum. Munurinn á hæsta á lægsta verðinu var um 40 prósent á þeim fjórum nikótínlyfjum sem könnuð voru. Lyfjaval var með lægsta verðið í tveimur tilfellum af fjórum. Munurinn var mestur 48,4 prósent á Nicorette Classic tyggjógúmmí en það kostar 3.328 krónur í Lyfjavali og 4.938 krónur í Garðsapóteki þar sem verðið var hæst.

Apótek LyfjaverÞorvaldur Árnason, eigandi Lyfjavals, segir apótekið ekki selja undir innkaupsverði en telur hugsanlega skýringu á verðmuninum vera gengisbreytingar sem þeir lyfsalar sem nýlega hafa keypt inn hafa orðið fyrir.

Notkun nikótínlyfja hefur aukist mikið undanfarin ár. Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisráðuneytinu voru tæplega 20 dagskammtar á hverja þúsund íbúa af lyfjunum Nicorette og Nicotinell á síðasta ári en aðeins 6 fyrir tíu árum síðan.

Könnunin var gerð í ellefu apótekum og verð 32 lausasölulyfja kannað. Lyfjaver var oftast með lægsta verðið eða í 23 tilfellum en Lyf og heilsa var oftast með hæsta verðið eða 19 sinnum og Skipholtsapótek kom þar fast á eftir með hæsta verðið í 18 tilvikum. Verðmunur á milli apóteka var minnstur rúm 19 prósent en mestur 67 prósent.

Henný Hinz, verkefnastjóri hjá ASÍ, segir það athyglisvert að stóru lyfsölukeðjurnar, Lyf og heilsa og Lyfja, séu í hærri endanum í könnuninni. "Það eru tveir mjög stórir aðilar á markaðnum, þeir hafa auðvitað alveg yfirburða markaðshlutdeild og ég hugsa að minni aðilarnir séu nú svona frekar að reyna að skapa sér sérstöðu með að vera með litla álagningu á þessum lyfjum."

Verðmunur á ofnæmislyfjum er einnig mikill, yfir 50 prósent á Clarityn en það er mikið notað á þessum árstíma. Niðurstöðurnar er að finna á heimasíðu ASÍ, www.asi.is. Visir.is mánudaginn 19. júní 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *