Óánægja meðal hjartasjúklinga með greiðslufyrirkomulag

ÁSGEIR Þór Árnason framkvæmdastjóri Hjartaheilla segir óánægju gæta meðal sjúklinga með greiðslufyrirkomulag vegna sérfræðiþjónustu hjartalækna.

Eins og fram hefur komið í fréttum er ekki í gildi samningur milli hjartalækna og heilbrigðisráðherra um greiðslu Tryggingastofnunar ríkisins fyrir þjónustu þeirra. Þess í stað hefur ráðherra sett reglugerð sem gefur sjúklingum kost á endurgreiðslu vegna kostnaðar fyrir þjónustu hjartalækna að vissum skilyrðum uppfylltum.

Sækja þarf um endurgreiðslu. Eitt skilyrðanna er að sjúklingur verði að leita þjónustunnar í gegnum heilsugæsluna. Það merkir að til þess að sjúklingur fái endurgreitt vegna heimsóknar sinnar til hjartalæknis verður hann fyrst að leita til heimilislæknis sem svo vísar á hjartasérfræðing. Auk þess verður sjúklingurinn nú að leggja út fyrir hlut Tryggingastofnunar í greiðslunni og leita svo til stofnunarinnar vegna endurgreiðslu. Einnig þarf sjúklingurinn að greiða 700 krónur fyrir tilvísunina frá heimilislækninum.

Hægt er að senda umsókn um endurgreiðslu til Tryggingastofnunar en Ásgeir segir ekki hægt að treysta þeirri þjónustu og að sjúklingar þurfi að fara á staðinn til að tryggja rétta meðferð umsóknarinnar. Hann segir þetta bitna illa á til dæmis öldruðum sem þurfi fyrst að taka leigubíl til heimilislæknis, svo sérfræðingsins og að lokum til Tryggingastofnunar til að fá endurgreiðsluna.

Tvöfalt kerfi. Við Læknamiðstöðina í Mjódd starfa um 20 hjartalæknar og að sögn starfsmanna þar gætir mikillar óánægju meðal sjúklinga vegna fyrirkomulagsins. Sjúklingar eru ekki vanir því að þurfa að greiða hlut Tryggingastofnunar í kostnaðinum og margir segja ekki taka því að gera sér ferð þangað til að fá endurgreiðsluna.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins kostar venjuleg skoðun og viðtal hjá hjartasérfræðingi um sex þúsund krónur og er hlutur sjúklings um fjögur þúsund krónur. Endurgreiðslan nemur því aðeins um tvö þúsund krónum í slíku tilfelli. Margir telja það ekki fyrirhafnarinnar virði að gera sér ferð til að sækja endurgreiðsluna og auk þess þurfa menn ekki tilvísun frá heimilislækni ætli þeir sér að greiða sérfræðiþjónustuna sjálfir. Þeir sem vilja fara beint til sérfræðings geta það séu þeir tilbúnir að greiða aukalega. Það má því segja að myndast hafi vísir að tvöföldu sjúklingatryggingakerfi.

Vilja að aðilar semji. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu er fyrirkomulagið ekki hugsað sem bráðabirgðaúrræði. Að mati Hjartaheilla er það óviðunandi ástand fyrir sjúklinga.

„Við styðjum hvorki hjartalækna né ríkið. Við viljum að þessir aðilar setjist niður og semji um lausn sem hentar sjúklingum,“ segir Ásgeir Þór.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *