Íslensk erfðagreining hefur annað stig prófana á tilraunalyfi

Íslensk erfðagreining skýrði frá því í dag að hafnar séu prófanir á sjúklingum á nýju tilraunalyfi fyrirtækisins við æðakölkun í fótleggjum, eða svokölluðum útæðasjúkdómi. Markmið prófananna er að kanna öryggi lyfsins og þol meðal sjúklinga og áhrif mismunandi skammtastærða á samloðun blóðflagna og styrk ýmissa sameinda í blóðvökva sem vitað er að tengjast æðakölkun.

Stefnt er að því að 150 íslenskir sjúklingar muni taka þátt í þessum lyfjaprófunum. Hluti þeirra er með áhættuarfgerð erfðavísis sem vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa sýnt fram á að valdi aukinni hættu á æðakölkun í fótleggjum. Þátttakendum verður skipt í þrjá jafnstóra hópa. Sjúklingar í einum hópnum munu taka 100 mg af lyfinu tvisvar á dag, í öðrum 400 mg tvisvar á dag og þriðji hópurinn mun fá lyfleysu til viðmiðunar. Hver þátttakandi mun taka lyf eða lyfleysu í fjórar vikur. Prófanirnar verða slembiraðaðar og tvíblindar sem felur í sér að þátttakendum verður raðað í meðferðarhópa með tilviljanakenndum hætti og hvorki þátttakendur né stjórnendur rannsóknanna munu vita fyrirfram hvaða meðferðarflokki hver þátttakandi tilheyrir.

"Þær rannsóknir sem við höfum gert á lyfinu fram að þessu, með þátttöku heilbrigðra einstaklinga, lofa góðu. Það er mikill skortur á meðferðarúrræðum við útæðasjúkdómi sem hrjáir tugi milljóna manna um allan heim og eykur verulega líkurnar á öðrum hjarta- og æðasjúkdómum. Ég er mjög stoltur af því að vera nú að hefja annars stigs prófanir á þessu lyfi enda er þetta fyrsta lyfið sem vísindamenn fyrirtækisins hafa þróað frá grunni út frá niðurstöðum erfðarannsókna," sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Um útæðasjúkdóm (æðakölkun í fótleggjum)
Útæðasjúkdómur hrjáir um 10% fullorðinna í vestrænum löndum og yfir 20% þeirra sem komnir eru yfir sjötugt. Sjúkdómurinn lýsir sér í því að æðar þrengjast vegna myndunar æðaskellna og blóðstreymi til handa og fótleggja minnkar. Helstu einkenni sjúkdómsins er tímabundinn sársauki í fótleggjum við göngu eða æfingar. Ef sjúkdómurinn gengur svo langt að æð stíflast getur það leitt til dreps í útlimum. Engin lyfjameðferð er þekkt sem hefur áhrif á líffræðilegar orsakir sjúkdómsins eða kemur í veg fyrir framþróun hans.

Um tilraunalyfið DG041
DG041 er nýtt tilraunalyf sem þróað hefur verið af vísindamönnum Íslenskrar erfðagreiningar og vonast er til að geti bætt úr brýnni þörf á nýjum meðferðarúrræðum við útæðasjúkdómi. DG041 er fyrsta lyfið sem hefur verið þróað út frá niðurstöðum erfðarannsókna á algengum sjúkdómi og fyrsta lyfið sem vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa þróað frá grunni. DG041 er lítil lyfjasameind af nýjum lyfjaflokki og er ætlað til inntöku í töfluformi. Greint var frá helstu niðurstöðum fyrsta fasa prófana á lyfinu í febrúar síðastliðnum. Þær sýndu að lyfið þoldist vel og engar alvarlegar aukaverkanir komu fram. Einnig virtist það hindra samloðun blóðkorna án þess að auka svokallaðan blæðitíma.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *