VERÐ Á lyfseðilsskyldum lyfjum hefur hækkað um allt að 20% hjá markaðsráðandi lyfsölukeðjum frá því í apríl í fyrra að því er fram kemur í samanburði á nýlegri lyfjaverðskönnun verðlagseftirlits ASÍ sem gerð var nú í júní og sambærilegri könnun frá því í apríl í fyrra.
Samhliða því sem leyfileg hámarkssmásöluálagning hefur lækkað hafa lyfjabúðir dregið úr þeim afslætti sem þær veita af hluta sjúklings í lyfjaverðinu og þannig minnkað verulega ávinning neytenda af því samkomulagi sem gert var við lyfjasmásala í fyrra um lækkun á lyfjaverði.
Í skýrslunni kemur fram að hvorug lyfsölukeðjan hafi boðið viðskiptavinum upp á ódýrara samheitalyf sem hefði getað lækkað kostnað neytandans vegna bólgueyðandi verkjalyfs um 20% þó svo að apótekið hefði engan afslátt veitt af lyfinu.
Upplýsingaskylda lyfsala Samkvæmt reglugerð um afgreiðslu lyfseðla, áritun og afhendingu lyfja er lyfjafræðingi skylt að upplýsa neytendur um val á milli samsvarandi samheitalyfja sé verðmunur milli þeirra meiri en 5%. "Lyf eru mjög sérhæfð vara sem notandinn hefur oft takmarkaða þekkingu á og því afar mikilvægt að neytendur geti treyst því að fá upplýsingar og ráðgjöf hjá fagfólki og að framboð á þeim ódýrari samheitalyfjum sem eru á markaði sé fyrir hendi í apótekum," segir í fréttatilkynningu.
Í könnuninni er borið saman verð á fjórum lyfjum hjá lyfsölukeðjunum tveimur, Lyfjum og heilsu og Lyfju. Lyfin eru annars vegar tvö lyf fyrir almennan sjúkling, mígrenilyfið Imigran og verkjalyfið Voltaren rapid, og hins vegar tvö lyf fyrir ellilífeyrisþega, blóðþrýstingslyfið Cozaar comp og sýklalyfið Zitromax. Í öllum fjórum tilfellum var verð Lyfju lægra en hjá Lyfjum og heilsu, en þó hafði verðið hjá Lyfju hækkað meira hlutfallslega en hjá Lyfjum og heilsu. Þýðir það að verðmunurinn var enn meiri í fyrra. Þannig hækkaði Imigran um 9,5-12,6% á milli ára og Zitromax um 17,2-20%. Morgunblaðið 27. júní 2006