
Lyfjafræðingum í apótekum er skylt að upplýsa sjúklinga um ódýr samheitalyf og heilbrigðisráðherra vill að Lyfjastofnun brýni fyrir apótekum að sinna skyldum sínum í þessum efnum. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis – og tryggingamálaráðherra, sendi í gær bréf til Lyfjastofnunar þar sem farið er fram á að stofnunin ítreki við lyfsala að sjúklingar séu upplýstir um ódýrari samheitalyf sé verðmunurinn meiri en 5%.
Ráðherra bregst með þessu við nýlegri könnun ASÍ á lyfjaverði, en auk upplýsinga um þróun lyfjaverðs kemur fram í könnuninni, að lyfjafræðingar hjá tveimur lyfsölukeðjum virðast láta undir höfuð leggjast að sinna skyldum sínum sem skilgreindar eru í reglugerð um afgreiðslu lyfseðla, áritun og afhendingu lyfja með áorðnum breytingum, að því er segir í tilkynningu.
Í bréfi ráðherra til Lyfjastofnunar segir m.a.: „Í nýlegri könnun ASÍ á lyfjaverði kemur fram, að lyfjafræðingar hjá þeim tveimur lyfsölukeðjum sem eru markaðsráðandi hér á landi sinna ekki þessari skyldu sinni. Af þessu tilefni fer ráðuneytið fram á það við Lyfjastofnun að hún ítreki í dreifibréfi umræddar skyldur til apóteka landsins. Jafnframt beinir ráðuneytið því til Lyfjastofnunar að stofnunin ítreki þær heimildir, sem hún hefur samkvæmt lyfjalögum, til að knýja á um úrbætur sé ástæða til að mati stofnunarinnar, svo sem að veita áminningu sem getur verið undanfari leyfissviptingar," að því er segir í fréttatilkynningu. Morgunblaðið miðvikudaginn 28. júní 2006