Hár lyfjakostnaður þung byrði

Ólafur Ólafsson

ÞVÍ eldra fólki fjölgar sem hefur samband við félög eldri borgara og kvartar undan háu lyfjaverði, að sögn Ólafs Ólafssonar, formanns Landssambands eldri borgara (LEB). Ólafur segir fólkið tjá félögunum að hár lyfjakostnaður sé þung byrði á því.

Ólafur ÓlafssonHann bendir á að háan lyfjakostnað megi rekja til þess að hér á landi sé framboð af samheitalyfjum lítið. Þá séu þau samheitalyf sem hér sé hægt að kaupa litlu ódýrari en frumlyfin. "Í öðrum löndum, á Norðurlöndunum, í Bandaríkjunum og í Evrópu, eru samheitalyfin margfalt ódýrari en frumlyf," segir Ólafur.

Lyf 45% dýrari hér en í Danmörku og Noregi. Hann bendir á að Ísland skeri sig frá öðrum löndum. "Þrátt fyrir að við notum minnsta magn lyfja í heild miðað við önnur Norðurlönd erum við með langmesta lyfjakostnaðinn eins og eldri borgarar og landlæknir hafa margítrekað," segi Ólafur. Lyf séu almennt 45% dýrari hér en í Danmörku og Noregi. Ólafur segir að spyrja verði hvers vegna lyfjagreiðslunefnd, sem geti lögum samkvæmt ákveðið lyfjaverð, geri það ekki. "Ég vona að Siv Friðleifsdóttir, nýr heilbrigðisráðherra, taki á lyfjaverðsmálunum," segir Ólafur Ólafsson. Morgunblaðið föstudaginn 30. júní 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *