Lyfjafræðingar harma viðbrögð heilbrigðisráðherra

LYFJAFRÆÐINGAR Lyfja og heilsu hf. harma viðbrögð Sivjar Friðleifsdóttur heilbrigðisráðherra við lyfjaverðskönnun Alþýðusambands Íslands. Telja þeir ráðherra hafa brugðist við með þeim hætti að saka þá um að sinna ekki upplýsingaskyldu sinni varðandi ódýrari samheitalyf þegar verðmunur reynist meiri en 5%.

Segjast lyfjafræðingar fyrirtækisins ætíð hafa lagt mikla áherslu á að hlíta ákvæðum lyfjalaga og reglugerða, með því að bjóða ódýrari samheitalyf, séu þau fyrir hendi. Máli sínu til stuðnings benda þeir á að í verðkönnum ASÍ komi fram að undantekningarlaust hafi verið boðið upp á samheitalyfið Loritin í stað Clarityn. Lyfjafræðingar Lyfja og heilsu telja sig til heilbrigðisstéttar landsins og segja það einsdæmi að ráðherra kjósi að draga fagleg vinnubrögð ákveðinna heilbrigðisstarfsmanna í efa.

Upplýsingaskylda lyfjafræðinga. 28. júní síðastliðinn sendi Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra bréf til Lyfjastofnunar, þar sem hún sagði að samkvæmt könnun ASÍ sinntu lyfjafræðingar markaðsráðandi lyfsölukeðja ekki þeirri upplýsingaskyldu sem lög mæla fyrir um. Beindi ráðuneytið því til Lyfjastofnunar að ítreka þær heimildir sem hún hefur samkvæmt lyfjalögum til að knýja á um úrbætur, sé ástæða til að mati stofnunarinnar, svo sem að veita áminningu sem getur verið undanfari leyfissviptingar. Morgunblaðið mánudaginn 3. júlí 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *