Sjúkleg offita að aukast

Öryrkjum vegna offitu fjölgaði um 74 á rúmum áratug. MILLI áranna 1992 og 2004 fjölgaði öryrkjum sem höfðu offitu sem fyrstu sjúkdómsgreiningu í örorkumati um 200%; úr 37 í 111.

Árið 1992 voru 29 konur og átta karlar metnir öryrkjar vegna offitu en árið 2004 voru konurnar orðnar 82 og karlarnir 29 talsins. Aukning milli ára nemur 182% hjá konum og 263% hjá karlmönnum. Þess ber þó að geta að á árunum fjölgaði öryrkjum almennt talsvert mikið; kvenkyns öryrkjum fjölgaði um 63% og karlkyns um 53%. Þetta kemur fram í fræðigreininni "Algengi offitugreiningar hjá öryrkjum á Íslandi 1992-2004" sem birt er í nýjasta hefti Læknablaðsins.

Mikil aukning umfram aðra sem kljást við offitu. Samkvæmt könnun Manneldisráðs á árunum 1990-2002 jókst hlutfall karla með offitu um 5,9% milli áranna og hlutfall kvenna um 3,8%. Það er því um gríðarlega hlutfallslega aukningu að ræða á þeim sem greindir eru öryrkjar vegna offitu, jafnvel þótt fjöldi þeirra sem glíma við offituvandamál hafi farið vaxandi undanfarin ár. Fræðimenn telja sennilegt að þessi mikla fjölgun öryrkja vegna offitu sé merki um að veruleg og sjúkleg offita hafi aukist umfram væga offitu. Á sú skýring sér stoð í gögnum um þróun vandamálsins víðs vegar í heiminum, ekki síst í Bandaríkjunum, þar sem offitusjúklingum fjölgar ört og aukningin mælist mest í hópi þeirra sem haldnir eru sjúklegri offitu.

Vaxandi heilsufarsvandamál. Offita er vaxandi heilsufarsvandamál á Íslandi, eins og víða annars staðar. Sjúkdómurinn er áhættuþáttur fyrir hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki, slitgigt í burðarliðum auk fleiri kvilla. Í Bandaríkjunum hafa 9% af heildarútgjöldum heilbrigðiskerfisins verið rakin til offitu en við það bætist kostnaður sem einstaklingar og atvinnulífið hafa af heilsufarsvandamálinu.

Í fræðigreininni í Læknablaðinu er bent á þá staðreynd að offita getur bæði verið orsök og afleiðing örorku. Sænsk rannsókn bendir til þess að offita hjá miðaldra karlmönnum hafi í för með sér aukna hættu á örorku og til eru bandarískar rannsóknir sem sýna fram á að fólk sem á við margvíslega fötlun eða skerðingu að etja er í mun meiri áhættuhópi varðandi offitu en aðrir hópar.

Höfundar fræðigreinarinnar "Algengi offitugreiningar hjá öryrkjum á Íslandi 1992-2004" eru Sigurður Thorlacius, dósent við HÍ, Sigurjón B. Stefánsson, sérfræðingur hjá TR, og Laufey Steingrímsdóttir, næringarfræðingur Lýðheilsustöðvar. Morgunblaðið þriðjudaginn 4. júlí 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *