Helmingur þjóðarinnar leitar til sjúkraþjálfara

RÚMLEGA helmingur Íslendinga, eða um 53%, hefur nýtt sér þjónustu sjúkraþjálfara samkvæmt könnun sem Félagsvísindastofnun hefur unnið fyrir Félag sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara (FSSS). 

Samkvæmt könnuninni telja 63% þeirra sem leitað hafa til sjúkraþjálfara að meðferðin hafi dregið úr notkun verkjastillandi og bólgueyðandi lyfja. Þá segja 83% að meðferðin hafi haft frekar góð eða mjög góð áhrif á starfsþrekið þegar til lengri tíma er litið. 97,4% aðspurðra voru annað hvort jákvæð eða mjög jákvæð gagnvart starfi sjúkraþjálfara, en meðal þeirra sem höfðu leitað til sjúkraþjálfara voru 87% ánægð með meðferðina.

Stoðkerfisvandamál algeng Það kom fram á blaðamannafundiað könnunin hafi jafnframt leitt það í ljós að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar glími við einhvers konar stoðkerfisvandamál eða óþægindi.

"Sjúkraþjálfarar og fleiri hafa bent á að ástæðurnar megi meðal annars rekja til langs vinnudags og krafna um meiri framleiðni. Einnig hefur öryrkjum fjölgað mikið hérlendis á umliðnum árum og þar eru stoðkerfisvandamál einn meginorsakavaldurinn. Öldruðum hefur enn fremur fjölgað í samfélaginu og kröfur um lífsgæði aukist. Með kröfum um aukin lífsgæði stækkar sá hópur ört sem nýtir sér þau úrræði sem eru í boði til sjálfshjálpar," segir í fréttatilkynningunni.

Könnunin var símakönnun unnin dagana 27. febrúar til 13. mars sl. Úrtakið, 1200 manns á aldrinum 18 til 70 ára, var valið með tilviljunaraðferð úr þjóðskrá en nettósvarhlutfall var 70,7%. Morgunblaðið miðvikudaginn 5. júlí 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *