Skortur á meðferðarúrræðum við offitu

SKORTUR er á meðferðarúrræðum fyrir fólk sem glímir við offitu en eins og fram hefur komið fjölgaði öryrkjum vegna offitu um 200% milli áranna 1992 og 2004, úr 37 í 111. Sigurður Thorlacius, dósent við Háskóla Íslands og einn þriggja höfunda greinar um efnið í nýjasta hefti Læknablaðsins, segir að með sama áframhaldi verði meðhöndlun á offitu og sjúkdómum sem henni tengjast verulegur baggi á heilbrigðiskerfinu. "Það má segja að þetta sé nýjasti faraldurinn og hann hefur í för með sér ört vaxandi kostnað fyrir þjóðfélagið."

Kristnesspítali, Reykjalundur og Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði bjóða meðferðir fyrir fullorðið fólk sem þjáist af offitu auk þess sem fólk fær oft ráðgjöf og stuðning á heilsugæslustöðvum um allt land.

Að sögn Lúðvíks Guðmundssonar, yfirlæknis á Reykjalundi, eru ýmis úrræði í boði í samfélaginu, s.s. á líkamsræktarstöðvum, en innan heilbrigðiskerfisins er ekki nóg af skipulögðum meðferðartilboðum. Færri komast að en vilja og úrræðin miðast vanalega við alvarlegustu tilfellin. "Öll þessi prógrömm eru atferlismeðferðir þar sem reynt er að breyta lífsstíl og lifnaðarháttum fólks. Á Kristnesi og Reykjalundi fer líka hluti fólks í magahjáveituaðgerð á Landspítalanum að lokinni meðferð en hún felur í sér magaminnkun og styttingu á smáþörmum með það að markmiði að minnka magaplássið og draga aðeins úr meltingu."

Minna þrek, þreyta og verkir Lúðvík ítrekar að þessar aðgerðir séu aðeins fyrir þá allra verst settu og að hluti fólks kjósi að fara ekki í þær. Að hans sögn er offita fyrst og fremst atferlisvandamál en afleiðingarnar geta verið mjög alvarlegar. "Meginatriðið er auðvitað skert lífsgæði. Fólk hefur minna þrek, minna þol og þjáist af þreytu og verkjum. Mörgum líður illa andlega út af þessu og sumir draga sig jafnvel út úr öllu félagslífi og einangrast. Á sama tíma getur fólk þurft að glíma við fordóma og hefur jafnvel minni möguleika á atvinnumarkaði og á svonefndum sambandsmarkaði."

Líkamlegar afleiðingar segir Lúðvík geta verið nánast óteljandi. Sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómar, háþrýstingur, kransæðasjúkdómar, kæfisvefn, slitgigt og bakverkir hrjá marga og ófrjósemi hjá konum getur verið afleiðing offitu.

Þá er einnig hærri tíðni ákveðinna tegunda krabbameins meðal offitusjúklinga, s.s. brjósta-, legháls-, ristil- og blöðruhálskirtilskrabbameins.

Reykjalundur getur með nýjum þjónustusamningi við Heilbrigðisráðuneytið tekið við hundrað manns á ári í meðferð og er að auki með göngudeildarstarfsemi. Annar eins fjöldi kemur samanlagt í Hveragerði og á Kristnes. "Á Reykjalundi hefur verið skipulagt offituprógramm í fimm ár og meðalaldur fólks sem kemur til okkar er 30-35 ár. Konur eru í meirihluta en það er ekki endilega rétt mynd af því sem er úti í samfélaginu því svo virðist sem karlar leiti sér síður aðstoðar," segir Lúðvík.

Umhverfið hannað fyrir bíla Laufey Steingrímsdóttir, ein þriggja höfunda áðurnefndrar greinar í Læknablaðinu og næringarfræðingur hjá Lýðheilsustöð, segir forvarnarstarf gríðarlega mikilvægt í þessum málaflokki. "Umhverfið hefur breyst svo mikið hjá okkur og það er þess vegna sem fólk á í auknum mæli við þetta vandmál að stríða. Fólk er ekkert öðruvísi en áður," útskýrir Laufey. "Umhverfið býður lítið upp á hreyfingu og er raunar hannað fyrir bíla. Vinnusparnaður á skrifstofum er svo mikill að fólk þarf helst ekkert að hreyfa sig. Á sama tíma er mikið framboð af góðum mat og það er eiginlega merkilegt að það skuli ekki hreinlega allir hafa fitnað."

Laufey segir að fólk þurfi tækifæri til að hreyfa sig í daglegu lífi og þá skipti t.a.m. göngu- og hjólreiðastígar og almenningssamgöngur miklu máli. "Vinnuveitendur geta líka lagt sitt af mörkum og stuðlað að því að starfsfólk hreyfi sig í tengslum við vinnuna. Fólk fær gjarnan ökutækjastyrki en hversu margir styrkja fólk til að hjóla í vinnuna?"

Laufey segir offitu meðal barna einnig vera vaxandi vandamál og að það sé mikið áhyggjuefni enda líkur á því að það fylgi þeim alla ævi. "Það þarf að veita þeim stuðning og aðstoð sem fyrst," segir Laufey og leggur áherslu á fjölskyldumiðað prógramm enda geti börn ekki breytt um lífsstíl upp á eigin spýtur. Morgunblaðið miðvikudaginn 5. júlí 2006.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *