Þyrfti nánast allt plássið

BLÓÐBANKINN mun flytja í nýtt húsnæði á Snorrabraut 60 í haust, en með því er ætlunin að bæta úr langvarandi húsnæðisvanda bankans. Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans, segir þó ekki víst að þetta nýja húsnæði leysi vandann, enda virðist sem bankinn fái 900 fermetra, en hann þurfi 1.600.

Landspítali – háskólasjúkrahús (LSH) skrifaði undir leigusamning á húsnæðinu til 10 ára á þriðjudag, að fenginni heimild frá heilbrigðis- og fjármálaráðuneytum. Engin starfsemi er í húsinu, en þar var Skátabúðin áður til húsa, sem og líftæknifyrirtækið Urður Verðandi Skuld. Húsið er þrjár hæðir, samtals um 1.650 fermetrar, og er ráðgert að Blóðbankinn verði á neðstu tveimur hæðunum en framkvæmdanefnd um nýjan spítala á efstu hæðinni.

Blóðbankinn hefur verið í núverandi húsnæði við Barónsstíg frá árinu 1953, en það er um 650 fermetrar, segir Sveinn. "Spítalinn [LSH] hefur á liðnum árum unnið þarfagreiningu með okkur í Blóðbankanum um það hvað Blóðbankinn þyrfti. Á grunni þess voru lagðar fram tillögur um viðbyggingu, sem hefði uppfyllt þær þarfir, upp á um 1.600 fermetra," segir Sveinn. Horfið var frá hugmyndum um viðbyggingu og þess í stað ákveðið að fara þá leið sem nú hefur verið ákveðin.

"Við fögnum því að nú er komin ákvörðun um að LSH leigi þetta húsnæði til 10 ára," segir Sveinn. "Við leggjum mikla áherslu á það að nú þegar Landspítalinn þarf að forgangsraða inn í þetta nýja hús þá verði fagleg sjónarmið höfð að leiðarljósi, það er augljóst að Blóðbankinn er aðeins ein af mörgum deildum spítalans sem þjóna sjúkum sem búa við bága aðstöðu."

Blóðbankinn vildi 1.200 fermetra málamiðlun Blóðbankinn þarf samkvæmt þarfagreiningu um 1.600 fermetra, en Sveinn segir að þegar rætt hafi verið um hvernig hægt væri að koma starfseminni fyrir í nýja húsinu hafi verið ljóst að það hafi ekki staðið til boða. Forsvarsmenn bankans hafi reynt að ná þeirri málamiðlun að fá um 1.200 fermetra fyrir sína starfsemi, sem myndi leysa bráðasta vandann. Það rými á neðstu tveimur hæðunum sem Blóðbankanum eru ætlaðar er um 900 fermetrar, en til viðbótar er á hæðunum pláss sem fer undir stiga, tæknirými og annað sem ekki nýtist bankanum. Þessir 900 fermetrar eru um 38% stærra húsnæði en Blóðbankinn hefur til umráða í dag.

"Vandamál okkar í dag er að okkur virðast ekki standa til boða nema tvær hæðir hússins, þar sem þriðja hæðin á að fara undir framkvæmdanefnd nýs Landspítala. Þetta setur okkur í talsverðan vanda, þetta gæti því verið lausn sem ekki myndi leysa okkar vanda til fullnustu. Með því er ég ekki að segja að þessi lausn gangi ekki upp, heldur miklu fremur að við verðum að sjá til hvort við náum ekki að leysa þetta á næstu dögum," segir Sveinn. Morgunblaðið fimmtudaginn 6. júní 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *