Yfirlýsing frá formanni Læknafélags Íslands

Eftirfarandi yfirlýsing barst frá Sigurbirni Sveinssyni, formanni Læknafélags Íslands:

"Viðbrögð yfirstjórnar Landspítalans og heilbrigðismálaráðherra við nýgengnum dómum í málum tveggja lækna og fyrrum yfirmanna á spítalanum eru eftirtektarverð og vekja undrun. Í báðum tilvikum eru ákvarðanir yfirstjórnarinnar um annars vegar stöðulækkun og hins vegar brottvikningu úr starfi dæmdar ólögmætar. Í stað þess að bæta ráð sitt og heiðra niðurstöður dómaranna með því að veita þessum læknum stöður sínar að nýju án skilyrða, bregður spítalastjórnin á það ráð að virða dómana að engu og gengisfella þar með m.a. Hæstarétt Íslands. Í veikri vörn fyrir þessari óskiljanlegu ákvörðun sinni segir spítalastjórnin, studd af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, að dómarnir hafi ekki ógilt fyrri ákvarðanir hennar og þar með sé þarflaust að virða þá. Til mín hafa leitað á undanförnum dögum margir læknar, m.a. yfirmenn á Landspítalanum, sem lýst hafa áhyggjum sínum yfir vaxandi óróa meðal lækna innan veggja spítalans. Tilgangur þeirra hefur augljóslega verið sá að hafa samráð um hugsanlegar úrbætur og leita eftir hvort stéttarfélag lækna, Læknafélag Íslands, geti lagt hér e-ð gott til. Hefur mér orðið ljóst í þessum samtölum, að menn virðast ráðþrota gagnvart þessu ástandi.

Eins og margoft hefur verið bent á er Landspítalinn þrátt fyrir stærð sína og styrk viðkvæmur vinnustaður, þar sem gríðarlegir hagsmunir almennings liggja í hnökralausri þjónustu við sjúklingana. Læknar eru einungis einn hópur þeirra heilbrigðisstarfsmanna, sem fá þetta flókna gangverk til að starfa rétt. En það eru þeir, sem stunda lækningarnar, hvað sem öðru líður. Því hlýt ég að taka alvarlega þau skilaboð, sem berast nú Læknafélagi Íslands, um erfitt ástand innan veggja háskólasjúkrahússins og að umrædd dómsmál séu aðeins eitt birtingarform þeirra vandamála, sem við er að etja.

Mikilvægasta forsenda velgengni góðra stjórnenda er að kunna vel þá list að hlusta og þiggja ráð undirmanna sinna. Ein ástæða þess að illa virðist ára í samskiptum stjórnenda og annarra starfsmanna spítalans er að ráð lækna hafa verið lítt eða ekki þegin og mikil vinna læknaráðs spítalans við tillögur um fyrirkomulag hans hefur að mestu verið lögð til hliðar af yfirstjórninni.

Yfirstjórn spítalans verður að koma stjórnunaraðferðum sínum í nýjan og betri farveg ef ekki á illa að fara.

Kópavogur 5. júlí 2006, Sigurbjörn Sveinsson, formaður Læknafélags Íslands." Morgunblaðið fimmtudaginn 6. júlí 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *