Dregur úr reykingum unglinga

Unglingar á Suðurnesjum og í Reykjavík reykja meira en unglingar annars staðar á landinu. Þetta kemur fram í rannsókn á heilsu og lífskjörum barna sem gerð var meðal grunnskólanema nú í vor. Í ljós kom að 16 prósent unglinga á Suðurnesjum reykja daglega en 14,5 prósent ungliga í Reykjavík. Verulega hefur dregið úr reykingum unglinga undanfarin 11 ár. Árið 1995 reykti rúmur fimmtungur unglinga en einungis 12 prósent árið 2006. Lægst er hlutfallið á Norðurlandi vestra en þar reykja aðeins 2,9 prósent unglinga.

Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, sem stýrði rannsókninni, segir öflugt forvarnarstarf hafa skilað þeim árangri að dregið hafi úr reykingum.

Lýðheilsustöð hefur nú hafið átak gegn því að selja fólki undir 18 ára aldri tóbak í samstarfi við verslanakeðjur í landinu. Veggspjöld hafa verið útbúin með texta þar sem minnt er á að samkvæmt lögum sé bannað að selja tóbak til þeirra sem eru yngri en 18 ára. Ástæða þykir til þess að vekja athygli á þessum laga­ákvæðum nú vegna þess að reynslan sýnir að mörg ungmenni nota sumarið til að prófa að reykja. Visir.is föstudaginn 7. júlí 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *