Fullt samráð var haft við lækna

Jóhannes M. Gunnarsson

JÓHANNES M. Gunnarsson, framkvæmdastjóri lækninga við Landspítala – háskólasjúkrahús, hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

"Vegna þráláts misskilnings eða rangtúlkunar sem einkennt hefur málatilbúnað Læknafélags Íslands, nú síðast í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér til lækna af starfslokum tveggja yfirlækna hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi, þeirra Tómasar Zoëga annars vegar og Stefáns E. Matthíassonar hins vegar, telur undirritaður rétt að eftirfarandi komi fram:

Jóhannes M. GunnarssonÍ umræddri yfirlýsingu kemur fram sú afstaða Læknafélags Íslands að félagið deili ekki um lögmæti þeirrar stefnumörkunar LSH að yfirmenn helgi sig alfarið störfum hjá stofnuninni. Hins vegar fer félagið fram á að "þegar gerðar eru breytingar á störfum lækna vegna þessarar stefnumörkunar, þá sé það gert í samráði við starfsmenn, í samræmi við lög og í samræmi við gerða samninga þegar um þá er að ræða".

Undirritaður telur framkomnar aðdróttanir LÍ, í þá veru að ekki hafi verið haft samráð við starfsmenn, þ. á m. Tómas og Stefán, vegna breytinga sem urðu á störfum þeirra og annarra lækna í kjölfar stefnumörkunar spítalans, úr lausu loft gripnar. Staðreynd málsins er sú að fullt samráð var haft við læknana varðandi breytingar á starfstilhögun. Almennt séð var viðhorf lækna til stefnumörkunarinnar jákvætt. Tómas og Stefán reyndust hins vegar ófáanlegir til að fara að stefnunni en líkt og alkunna er neituðu þeir báðir að loka læknastofum sínum. Það eru tildrög málaferla þeirra beggja á hendur LSH.

Að fenginni dómsniðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli Tómasar og Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Stefáns, þar sem ráðstafanir sem gripið var til af hálfu LSH í því augnamiði að framfylgja stefnu stofnunarinnar um helgun yfirmanna voru dæmdar ólögmætar, var Tómasi formlega boðið starf yfirlæknis, en létt yrði af honum tiltekinni stjórnunarábyrgð. Þannig gæti hann haldið áfram stofurekstri. Á þetta féllst Tómas ekki og kaus sjálfur að láta af störfum hjá LSH.

Hvað mál Stefáns áhrærir þá er því ekki lokið enda hefur ekki verið tekin ákvörðun um það af hálfu LSH hvort niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur verði áfrýjað til Hæstaréttar Íslands, en frestur til þess er þrír mánuðir. Þann 4. júlí sl. fór lögmaður Stefáns hins vegar fram á fund með forstjóra LSH til að leita leiða til að leysa þann ágreining sem varð tilefni málaferla. LSH hefur þegar orðið við þeirri beiðni lögmannsins og munu aðilar hittast til viðræðna innan skamms.

Með vísan til alls framanritaðs má vera ljóst að eftirfarandi fullyrðing í yfirlýsingu LÍ á sér einfaldlega ekki stoð í raunveruleikanum en þar segir orðrétt: "Það er enn ámælisverðara að stjórnendur LSH ætli sér ekki að leiðrétta hlut læknanna þegar fyrir liggur að þeir voru beittir órétti". Þessi orð virðast sett fram í þeim tilgangi einum að kynda enn frekar undir því ófriðarbáli sem staðið hefur um stefnu spítalans í málefnum yfirmanna og framkvæmd hennar." Morgunblaðið föstudaginn 14. júlí 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *