Doktor í læknisfræði

Torfi Fjalar Jónasson

NÝVERIÐ varði Torfi Fjalar Jónasson læknir doktorsritgerð sína við læknadeild Háskólans í Lundi í Svíþjóð. Ritgerðin ber heitið "Homocysteine and Coronary Artery Disease, With Special Reference to Biochemical Effects of Vitamin Therapy." Andmælandi var Dr. Herman Nilsson-Ehle, yfirlæknir á Salhgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg og dósent við læknadeild Háskólans í Gautaborg, en leiðbeinandi var dr. Hans Öhlin, yfirlæknir við háskólasjúkrahúsið í Lundi og dósent við læknadeild Háskólans í Lundi.

Ritgerðin fjallar um efnið hómócýstein og samband þess við kransæðasjúkdóma. Hómócýstein er svokölluð amínósýra en náttúran notar margskonar amínósýrur sem byggingareiningar í mismunandi eggjahvítuefnum. Hómócýstein verður til við efnaskipti metíóníns en þá amínósýru fær líkaminn úr eggjahvíturíku fæði. Hómócýstein tekur hins vegar ekki þátt í byggingu eggjahvítuefna. Arfgengir efnaskiptagallar geta valdið of háu magni af hómócýsteini í blóði, en einnig geta B6 vítamín-, B12 vítamín- og fólínsýruskortur valdið hækkuðu hómócýsteini. Þá geta ýmsir sjúkdómar eins og verulega skert nýrnastarfsemi valdið of háu magni efnisins í blóði. Verulega há gildi af hómócýsteini, eins og sjást við arfgenga efnaskiptagalla, geta leitt til æðakölkunar og myndunar blóðtappa. Rannsóknir hafa sýnt að hækkun hómócýsteins sem ekki tengist efnaskiptagöllum getur aukið áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum.

Torfi Fjalar Jónasson Rannsóknirnar fjalla m.a. um hvert vægi skertrar nýrnastarfsemi er til hækkunar hómócýsteins í blóði hjá sjúklingum með kransæðasjúkdóm og kom í ljós að vægt skert nýrnastarfsemi veldur aðeins hluta af hækkun hómócýsteins. Einnig var athugað hvort sjúklingar með kransæðasjúkdóm og hækkun á hómócýsteini í blóði hefðu teikn um bólgu, aukið oxunarálag eða skerta starfsemi æðaþels og hvort hægt væri að hafa áhrif á þessi teikn með vítamínmeðferð. Hægt var að sýna fram á tvenns konar teikn um aukið oxunarálag hjá sjúklingum með kransæðasjúkdóm og hækkað magn hómócýsteins í blóði, en þótt vítamínmeðferðin lækkaði gildi hómócýsteins um nær helming hafði það engin áhrif á þessi teikn. Þannig var sýnt fram á samband milli hómócýsteins og bólgu en að vítamínmeðferð breyti engu þar um.

Dr. Torfi er starfandi hjartalæknir á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og hefur einnig móttöku í Læknasetrinu í Mjódd. Hann er giftur Ölmu D. Möller, yfirlækni og doktor í svæfinga- og gjörgæslulækningum, og eiga þau tvö börn. Morgunblaðið þriðjudaginn 18. jílí 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *