SALA hófst í gær á fyrsta samheitalyfinu sem lyfjafyrirtækið Portfarma flytur inn en fyrirtækið hyggst setja um 20 samheitalyf á íslenskan markað á næstu 12 mánuðum. Olgeir Olgeirsson, framkvæmdastjóri Portfarma, segir að erfitt sé fyrir lyfjafyrirtæki að flytja inn samheitalyf á íslenskan markað en hann vonast þó eftir að slíkur innflutningur geti borið sig í framtíðinni.
Rætt hefur verið um að spara megi Tryggingarstofnun og neytendum lyfja verulegar fjárhæðir ef flutt væri inn til landsins meira magn samheitalyfja. Samheitalyf eru eftirlíkingar af lyfjum sem þegar hafa verið markaðssett, svokölluðum frumlyfjum, og innihalda sömu virku efnin og frumlyfin. Samheitalyf eru hins vegar yfirleitt ódýrari.
Á næstu 12 mánuðum ætlar Portfarma að flytja inn og markaðssetja um 20 samheitalyf. Sala hófst á fyrsta lyfinu, Simvastatin Portfarma, í gær en lyfið hefur blóðfitulækkandi áhrif. Segir Olgeir að það sé nokkrum erfiðleikum háð að flytja inn samheitalyf til Íslands. "Helsti þröskuldurinn er hvað Ísland er lítill markaður. Oft er það þannig að lágmarkspöntun á lyfi er 100 þúsund töflur en markaðurinn hér þarf kannski ekki nema 9 þúsund á ári hverju."
Hann bendir einnig á að því fylgi um 40% viðbótarkostnaður á algengustu lyfjunum að hafa umbúðir og fylgiseðla á íslensku. Þetta hlutfall geti verið enn hærra við framleiðslu lyfja sem eru minna notuð.
Olgeir telur að með því að stækka það markaðssvæði sem Ísland tilheyri megi leysa þennan vanda og þar með stuðla að lyfjaverðslækkun. Forsenda þess konar lausnar sé að efla Lyfjastofnun svo hún geti tekið við skráningarumsóknum fyrir önnur markaðssvæði líkt og gert hafi verið í Danmörku. Þetta geri stofnunin nú þegar fyrir Actavis.
Samkvæmt upplýsingum frá Lyfju verður nýja samheitalyfið rúmlega helmingi ódýrara en frumlyfið en rúmlega 10 prósent ódýrara en sambærilegt samheitalyf. Morgunblaðið þriðjudaginn 18. jílí 2006