Misskipting tekna er helsti áhrifavaldur hrakandi heilsu

Íslenska heilbrigðiskerfið er umfangsmikið, miðstýrt og mjög kostnaðarsamt. Á Íslandi hefur fjárhæðin sem varið er í hvern og einn einstakling í heilbrigðiskerfinu aukist umfram það sem tíðkast í flestum ríkjum OECD. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, nýútskrifaður doktor í heilsuhagfræði og sérfræðingur hjá Hagfræðistofnun, hefur unnið.

Frá árinu 1970 hafa útgjöld til málaflokksins rúmlega tvöfaldast og nam heildarkostnaður við heilbrigðiskerfið hér á landi 9,32% af vergri landsframleiðslu árið 2000, þrjátíu árum fyrr var rúmum 4% varið í málaflokkinn.

Samkvæmt tölum frá árinu 2000 er heildarkostnaður við heilbrigðiskerfið einungis hærri í þremur OECD-ríkjum og sé litið til útgjalda ríkissjóðs vegna heilbrigðiskerfisins er Ísland í öðru sæti; Þýskaland er eina OECD-ríkið þar sem meiri opinberum fjármunum er varið í heilbrigðiskerfið en á Íslandi.

Enginn vafi leikur á því að það hefur löngum verið skoðun almennings að allir skuli eiga jafnan rétt og aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu. Stjórnvöld hafa fylgt þeirri stefnu um nokkra hríð og greypt hana í ýmis lög og reglugerðir. Í fyrstu grein laga um heilbrigðisþjónustu segir til að mynda að allir landsmenn skuli eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði. Margir hafa því spurt sig þeirrar spurningar hvort allar þær tekjur sem árlega renna úr ríkissjóði til reksturs heilbrigðisþjónustu hafi upprætt launatengt ójafnræði hvað varðar heilsu fólks. Með öðrum orðum hvort stjórnvöldum hafi tekist að dreifa þeim mikla auði sem fólginn er í góðri heilsu jafnt á milli íbúa landsins, án tillits til tekna þeirra.

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir veltir þessari spurningu ásamt fleirum fyrir sér í umfangsmikilli rannsókn sem einfaldlega ber heitið Tengsl heilsu og tekna á Íslandi. „Mér fannst vera þörf á rannsókn af þessari tegund hér á landi. Kostnaður við íslenskt heilbrigðiskerfi hefur aukist mjög hratt að undanförnu og gríðarmiklum fjármunum verið varið í málaflokkinn, án þess að það hafi verið kannað til hlítar hvort okkur hafi tekist að aftengja laun og heilsu og dreifa þeim gæðum sem fólgin eru í góðri heilsu jafnt á milli almennings, án tillits til tekna,“ segir Tinna. Morgunblaðið miðvikudaginn 16. ágúst 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *