
LÍFTÆKNIFYRIRTÆKIÐ deCODE Genetics, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar, hefur tilkynnt að félagið sé byrjað að skrá sjúklinga í svokallaðar fasa 1 prófanir á efninu DG051, sem ætlað er að minnka líkur á hjartaáföllum.
DG051 hefur verið þróað af vísindamönnum Íslenskrar erfðagreiningar og er ætlað að hafa svipuð áhrif og efnið DG031, sem einnig er beint gegn hjartaáföllum, en er komið lengra í þróunarferlinu. Er DG031 komið í svokallaðar fasa 3 prófanir.
Báðum lyfjunum er beint gegn ákveðnum próteinum, sem erfðafræðilegar rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar hafa sýnt fram á að auki líkur á hjartaáfalli.
Gangi tilraunir með DG031 að óskum má búast við því að lyf geti verið komið á markað eftir þrjú til fimm ár.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir stefnu fyrirtækisins þá að einbeita sér að rannsóknum eins og þeim sem nú fara fram á DG051 og DG031 og þróun lyfja til að koma í veg fyrir hjartaáföll. "Þessi vinna byggist á frumkvöðlauppgötvunum okkar á sviði mannlegrar erfðafræði, sem veitt hefur okkur nýja sýn á líffræðilegar ástæður hjartaáfalla," segir Kári.
Viðræður við stórfyrirtæki Í frétt Morgunkorns greiningardeildar Glitnis segir að Íslensk erfðagreining eigi nú í samningaviðræðum við nokkur stór lyfjafyrirtæki um framleiðslu og sölu á lyfi gegn hjartaáföllum byggðu á lyfjaefnunum DG031 og DG051, þó að ekki hafi verið gerð nánari grein fyrir því hvaða fyrirtæki sé um að ræða. Komið hafi fram í máli Kára Stefánssonar, að í samningagerð félagsins við stóru lyfjafyrirtækin um framleiðslu og sölu á lyfi gegn hjartaáföllum muni bæði DG031 og DG051 verða innifalin. Morgunblaðið miðvikudaginn 16. ágúst 2006