Bíður í óvissu eftir hjartaþræðingu

Aðalsteinn Valdimarsson

„Ég bíð eftir að fá þræðingu einhvern tímann í haust, það er ekki komin dagsetning á það, en þetta er það sem er því miður allt of mikið af," segir Aðalsteinn Valdimarsson, hjartasjúklingur og formaður Hjartaheilla á Austurlandi.

Aðalsteinn ValdimarssonEins og fram kom í Fréttablaðinu á sunnudag bíða um tvö hundruð hjartasjúklingar eftir hjartaþræðingu og í sumum tilfellum þurfa sjúklingar að bíða í allt að sex mánuði eftir að komast að. Aðalsteini finnst ástandið algjörlega óviðunandi. „Mér finnst þannig unnið að þessum málum af yfirvöldum, að þar sé undirliggjandi hugsunargangur um að takmarka aðgengi sjúklinga að þessu í von um að einhverjir detti út af sjálfum sér," segir Aðalsteinn.

Aðalsteinn kveðst ekki óttast að hann verði látinn bíða of lengi eftir bót meina sinna. „Nei, ég hef nú alltaf haft þá trú að maður hafi bara ákveðinn tíma hérna og maður verði að njóta hans á meðan maður getur," segir Aðalsteinn.

„Þetta ástand hlýtur að koma mjög óþægilega við þá sem eru að fara í fyrsta skipti. Þeir bíða í von um að þeir komist nægilega fljótt að áður en að það er um seinan. Hinir reyndari vita að hverju þeir eru að ganga, en það er jafn erfitt fyrir þá að bíða engu að síður," segir Aðalsteinn.

Haraldur Finnsson, formaður Hjartaheilla á höfuðborgarsvæðinu, sagði í blaðinu á sunnudaginn biðina eftir aðgerð afar erfiða fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra. „Því miður veit ég dæmi þess að hjartasjúklingar sem bíða aðgerðar lifi biðina ekki af. Svo eru aðrir sem detta út af vinnumarkaðinum vegna veikinda á meðan þeir bíða," segir Haraldur.
Á milli sextán og átján hundruð manns fara í hjartaþræðingu á hjartadeild Landspítalans árlega, þar af fara tæplega sjö hundruð í kransæðavíkkun. Visir.is föstudaginn 18. ágúst 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *