Yfir 90% tilvísana vegna fólks í reglulegri meðferð

EIN kvörtun hefur borist frá sjúklingi til landlæknisembættisins vegna nýlegs tilvísunarkerfis til hjartalækna. Heimilislæknir segir engan hafa komið til sín og óskað eftir að fara til hjartalæknis sem ekki hafi haft þörf fyrir það, og segir að yfir 90% tilvísana sem hann gefi út séu vegna fólks sem sé í meðferð hjá hjartalækni.

Eins og fram hefur komið er enginn samningur í gildi um greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins fyrir þjónustu hjartalækna, en í nýlegri reglugerð er sjúklingum gefinn kostur á endurgreiðslu vegna kostnaðar fyrir þjónustu hjartalækna ef heimilislæknir þeirra vísar þeim til hjartalæknis.

Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir segir að landlæknisembættinu hafi einungis borist kvörtun frá einum sjúklingi vegna þessa nýja fyrirkomulags. "Auðvitað hefur þetta skapað ákveðin óþægindi fyrir suma, en í heild finnst mér þetta hafa gengið vonum framar."

Matthías segist ekki hafa nein staðfest dæmi um að sjúklingar hafi fengið ranga meðferð hjá heimilislækni vegna þessa fyrirkomulags. Hann hafi heyrt umfjöllun um eitt slíkt mál í fjölmiðlum, en fyrirspurnum hans til þess er málið varðaði hafi ekki verið svarað. Ekki sé hægt að túlka það öðruvísi en að sú fullyrðing eigi ekki við rök að styðjast.

1-2 tilvísanir á dag Sigurbjörn Sveinsson, heimilislæknir og formaður Læknafélags Íslands, segir að með þessu kerfi sé verið að sóa tíma sjúklinga, og gera þeim erfitt fyrir. Hann segir að í sínu starfi hafi hann ekki enn fengið til sín sjúkling sem óski eftir tilvísun til hjartalæknis sem þangað eigi ekki erindi. "Ég hef ekki á takteinum dæmi úr mínu starfi þar sem ég hef fengið beiðni um ónauðsynlega tilvísun," segir Sigurbjörn.

"Ég veit ekki hvernig reynslan er hjá öðrum læknum, en ég hef gefið út allmargar tilvísanir. Langflestar, yfir 90%, eru fyrir sjúklinga sem eru í meðferð hjá hjartalækni, hafa verið um lengri eða skemmri tíma. Margir hverjir eru þar upphaflega samkvæmt minni tilvísun."

Þessir sjúklingar hafa því fullkomlega eðlilegar ástæður fyrir því að hitta sinn hjartalækni reglulega, og segir Sigurbjörn að ef þetta kerfi sé tilraun til að prófa hvort tilvísanir geti verið sparnaðartæki sé ljóst að það gangi ekki. Hann segir að um 1-2 sjúklingar komi til sín á dag til að fá tilvísun til hjartalæknis, en tekur fram að sú tala sé byggð á sinni tilfinningu og ekki fundin út með vísindalegum aðferðum.

Tilvísun eftir á Eitthvað er um að fólk fari til hjartalæknis án þess að afla sér tilvísunar, hvort sem er vegna þess að ekki vinnst tími til að fara fyrst til heimilislæknis eða vegna þess að sjúklingurinn veit ekki af því að tilvísun þurfi. "Ég tek því vel ef sjúklingurinn er hjá hjartalækninum að mínu undirlagi, og þetta hefur einhvernveginn farið í kross," segir Sigurbjörn.

"Það er alveg sjálfsagt að greiða götu þessa fólks, enda var því lýst yfir af hálfu ráðuneytisins að það yrði reynt að koma til móts við þarfir almennings og skapa ekki óþægindi og óánægju að óþörfu. Þannig að allir sanngjarnir læknar hafa reynt að leysa flestra mál eins og kostur er." Morgunblaðið sunnudaginn 20. ágúst 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *