
ÁHEIT frá starfsmönnum Glitnis að upphæð 22,2 milljónir króna söfnuðust í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis síðastliðinn laugardag. Voru áheitin afhent við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær þar sem Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, fluttu ávörp.
Alls tóku 502 starfsmenn Glitnis þátt í maraþoninu og hét bankinn á þá með því að greiða 3 þúsund krónur til góðgerðamála fyrir hvern hlaupinn kílómetra. Starfsmennirnir ákváðu sjálfir vegalengdina og hvaða góðgerðasamtök skyldu njóta framlagsins.
Námu áheit bankans alls 13,6 milljónum króna en starfsmennirnir skoruðu ennfremur á almenning, vini og vandamenn, að leggja sitt af mörkum með því að heita á þá og söfnuðust þannig 8,6 milljónir króna til viðbótar. Hlupu starfsmenn bankans samtals 4.380 kílómetra.
Stjórn Hjartaheilla þakkar Hörpu og Bjarti, starfsmönnum Glitnis, þeirra framlag til Hjartaheilla. Morgunblaðið 25. ágúst 2006