Framkvæmdastjóri Hjartaheilla segir að þjónusta við sjúklinga hafi versnað til muna eftir sameiningu spítala í Reykjavík. Hann tekur undir með Læknafélagi Íslands að sameining hafi verið misráðin og leggur til að sérstakur brjóstholsspítali verði stofnaður.
Læknafélag Íslands ályktaði um helgina að sameining spítalanna í Reykjavík hafi verið misráðin. Sjúklingar verði að sætta sig við þá þjónustu sem einokunarspítali bjóði. Hin svokallaða hagræðing hafi verið fólgin í fækkun sjúkrarúma og alltof mikilli fækkun starfsfólks. Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjóri Hjartaheilla, tekur undir þessi sjónarmið og segir að hjartadeild LSH hafi helst líkst umferðarmiðstöð þegar hann heimsótti hana.
Í greinargerð Læknafélags Íslands kom fram að læknar þurfi að hefjast handa við undirbúning sjúkrahúsreksturs á eigin vegum eða í samvinnu við fjárfesta. Ásgeir leggur til að hér verði stofnað sérstakt brjótsholssjúkrahús og segist finna meðbyr við slíkum hugmyndum. ruv.is 5. september 2006