Þjónustan verður ekki flutt heim

ÞÓTT hjartaskurðdeild LSH fái gervilunga þá breytir það því ekki að eftir sem áður þurfa árlega um 20 börn að leggja leið sína til Boston í Bandaríkjunum í flóknari hjartaskurðaðgerðir. Þetta segir Gylfi Óskarsson, barnahjartalæknir á Barnaspítala Hringsins, og bendir á að ekki sé rétt sem fram kom í tilkynningu sem birt var í Morgunblaðinu um nýliðna helgi að með tilkomu gervilungans þyrftu börn sem fæðast með hjartagalla ekki að fara utan í aðgerðir, en í sömu frétt kom fram að verið væri að safna fyrir gervilunga til handa börnum.

Gylfi er einn þriggja barnahjartalækna á Barnaspítalanum sem annast börn með hjartagalla, annast um greiningu þeirra og metur hvort hægt sé að framkvæma nauðsynlega aðgerðir hér heima eða hvort senda þurfi barnið utan í aðgerð.

"Ég virði það mjög að verið sé að safna fyrir tækjabúnað fyrir hjartaskurðdeildina, sérstaklega ef það er tækjabúnaður sem sérlega er ætlaður börnum," segir Gylfi, en tók fram að hins vegar væri mikilvægt að réttar upplýsingar kæmu fram.

Hafa aðgang að fremstu barnahjartaskurðlæknum Að sögn Gylfa eru 1,7% allra barna sem fæðast á Íslandi árlega með hjartagalla. "Af þeim eru kannski 30 sem eru með galla sem þarf að laga í aðgerð," segir Gylfi og tekur fram að einfaldari aðgerðir, svo sem lokun á opi milli gátta og ósæðarþrengsl, hafi verið framkvæmdar hérlendis síðan 1997 með góðum árangri. "Hins vegar þarf árlega að senda um 20 börn til Boston í flóknari skurðaðgerðir og leiðréttingar á alvarlegri göllum," segir Gylfi og tekur fram að það samstarf hafi gengið gríðarlega vel. "Við búum svo vel að hafa þar aðgang að fremstu barnahjartaskurðlæknum í heimi, sem er mikið lán fyrir Ísland," segir Gylfi. 

Tilfellin of fá til þess að hægt sé að færa þjónustuna heim Bendir hann á að ástæða þess að þessar flóknu hjartaaðgerðir á börnum séu ekki framkvæmdar hérlendis hafi ekkert með tækjabúnað eða skort á henni að gera, heldur megi rekja ástæðuna til þess hversu fámenn þjóð við erum og það hversu fá tilvik hjartagalla á börnum komi upp árlega. "Þannig að jafnvel þótt við hefðum allan þann tækjabúnað sem til er á bestu stöðum þá væri ekki hægt að koma því þannig fyrir að þessar hjartaaðgerðir á börnum væru gerðar hér. Það helgast af því að tilfellin hérlendis eru svo fá að það er ekki hægt að halda uppi þjálfun okkar lækna í að gera slíkar aðgerðir," segir Gylfi og bendir á að almennt sé talið að það þurfi 150 barnahjartaaðgerðir á ári til þess að hægt sé að bjóða upp á fullkomna þjónustu. "Miðað við þetta þyrftu Íslendingar að vera um tvær milljónir til þess að það væri hægt að flytja þessa þjónustu heim." Morgunblaðið 12. september 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *