Alþjóðlegi hjartadagurinn og hjartaganga Hjartaheilla

Alþjóðlegi hjartadagurinn er haldinn ár hvert síðasta sunnudaginn í september.  Nú ber hann upp á 24. september og þema hans í þetta sinn er "Hve ungt er þitt hjarta". Hættan á hjartasjúkdómum eykst með aldrinum en lífsstíll hvers og eins hefur þar einnig afgerandi áhrif.

Alkunnugt er að óhollt mataræði, offita og reykingar eru miklir áhættuþættir varðandi hjartasjúkdóma og því ástæða fyrir alla að varast þá. 

Einnig og ekki síður er ástæða til að minna á að að holl hreyfing með hæfilegri áreynslu er afar mikilvægur þáttur til að viðhalda líkamanum og halda hjartanu ungu. Hreyfingin er eitthvað sem allir þurfa að huga að sama á hvaða aldri sem þeir eru.  Rannsóknir sýna að ekki er nóg að stunda íþróttir á ungum aldri og hætta svo þó lengi búi að fyrstu gerð.  Það má aldrei slaka á.  Ekki er nóg að rjúka til öðru hvoru og taka sér tak en slaka svo á langtímum saman. Þá skaðast  árangur átaksins.  Hver aldurshópur og hver einstaklingur þarf að finna sér þá leið eða aðferð sem best hentar hverjum og einum hverju sinni.

Ein leið til hollrar hreyfingar sem flestum hentar og ólíkir aldurshópar geta stundað saman bæði til heilsuræktar og félagsskapar er göngur. 

Hjartaheill, sem eru samtök hjartasjúklinga á Íslandi hafa hvatt félagsmenn sína og aðra til að styrkja heilsu sína með hollri hreyfingu.  Þau stóðu að ásamt SÍBS og Hjartavernd sem eru samtök þeirra er rannsóknum sinna á þessu sviði,  að stofnun HL- stöðvarinnar í Reykjavík á sínum tíma en  þar þjálfa þeir  sem hafa fengið hjarta- eða lungnasjúkdóma.  Einnig hafa samtökin  staðið fyrir gönguhópum sem ganga reglulega víða um land.  Þá hefur hjartadagsins gjarnan verið minnst með Hjartagöngu.  Þeirri hefð munum við halda næsta sunnudag. 

Hjartaganga Hjartaheilla á höfuðborgasvæðinu og Neistans, styrktarfélags hjartveikra barna verður í Elliðaárdalnum kl.14:00  sunnudaginn 24. sept.  og verður lagt af stað frá gamla Rafstöðvarhúsinu.  Boðið verður upp á hressingu,  kynningu á stafgöngu á vegum ÍSÍ og síðan upphitun fyrir gönguna.  Þeir sem eiga göngustafi eru beðnir að hafa þá meðferðis.   Allir þeir sem hafa fengið hjartasjúkdóma, aðstandendur  þeirra  og aðrir  sem áhuga hafa á léttri gönguferð  í fögru umhverfi eru hvattir til að mæta.

Þá verður opið hús hjá Hjartavernd, Holtasmára 1,  Kópavogi milli 14:00 og 17:00 þar sem fólki gefst kostur á að koma í heimsókn, kynna sér starfsemi Hjartaverndar og fá fræðslu  um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma og áhættumat hjartarannsóknar. Að auki verður boðið upp á blóðþrýstingsmælingar.

Haraldur Finnsson formaður Hjartaheilla á höfuðborgarsvæðinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *