Alþjóðlegi hjartadagurinn, sunnudaginn 24. september 2006

Með því að huga að helstu áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma eins og hreyfingarleysi og kyrrsetu, óhollu mataræði og tóbaksnotkun má koma í veg fyrir 80% þeirra og halda heilbrigðu hjarta ævilangt. Vegna þessa er þema Hjartadagsins í ár orðað með spurningunni „Hve ungt er þitt hjarta?"

Hjartadagurinn er haldinn á heimsvísu af rúmlega hundrað aðildarfélögum Alþjóða hjartasamtakanna (World Heart Federation) og er Hjartavernd eitt af þeim. Viðburðir þennan dag eru margvíslegir í löndunum, allt frá heilsumælingum, göngum, leikfimi, almennum fyrirlestrum, ráðstefnum, vísindasýningum og tónleikum til stórra íþróttamóta.

Hjartasjúkdómar og heilablóðföll eru helsta dánarorsökin alls mannkyns og draga til dauða að minnsta kosta 17 milljónir ár hvert. Flestir sem deyja af þessu sökum eru frá þeim hluta heimsins þar sem tekjur eru í miðlungs eða lægri mörkum og flestir eru vinnandi fólk. Á Íslandi hefur tíðni hjarta- og æðasjúkdóma minnkað verulega á síðustu árum en enn er það svo að þeir sem fá hjarta- og æðasjúkdóma er fólk sem enn er í fullu fjöri. Þannig fengu tæplega 300 Íslendingar undir 75 ára aldri kransæðastíflu á árinu 2003.

Hreyfing er hverjum manni nauðsynleg til að viðhalda heilbrigðu hjarta. Skokk í eina klukkustund eða meira í viku hverri getur dregið úr líkum á hjartasjúkdómi um 42%. Röskleg ganga í 30 mínútur á dag minnkar líkurnar um 18%2 og á heilablæðingu um 11%. Ganga til vinnu er góð leið til að ná þessu marki.

Þeir sem ekki hreyfa sig reglulega auka líkurnar á offitu og yfirþyngd, sykursýki og háþrýstingi en þetta eru þeir þættir sem helst láta hjartað eldast langt um aldur fram. Hjartað er vöðvi sem þarf reglulega að taka á til að geta í hverjum hjartslætti dælt blóðinu um líkamann. Regluleg hreyfing hefur jafnframt áhrif á aðra tengda áhættuþætti og minnkar líkur á æðaþrengingum, bætir „góða" kólesterólið (HDL) og stuðlar að eðlilegu magni sykurs í blóði.

Til að eiga heilbrigt hjarta ævilangt er mikilvægt að jafnvægi ríki milli þeirra hitaeininga sem neytt er og þeirra hitaeininga sem brennt er. Til að jafnvægi haldist er nauðsynlegt að borða mikið af ávöxtum og grænmeti, matvöru úr heilum höfrum, magurt kjöt og fisk, samhliða því að borða fitulitlar eða fitusnauðar afurðir. Mælt er með því að fólk noti frekar ómettaðar fitu eins og korn-, sólblóma- eða ólífuolíur en mettaðar fitu eins og smjör og smjörlíki sem viðbit eða til matargerðar.

Reykingar eru einn aðaláhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma. Með því að drepa í yngist hjartað um mörg ár, „góða" kólesterólið (HDL) eflist og líkurnar á blóðtappa minnka verulega. Samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar stytta miðaldra karlmenn sem að staðaldri reykja pakka eða meira af sígarettum á dag meðalævina um 13 ár en miðaldra konur um 10 ár. Þeir sem reykja eru hvattir til að reyna að hætta og sérstaklega að reykja ekki í nærveru barna sinna. Reykingamenn eru ekki bara að ganga nærri sinni eigin heilsu heldur eru þeir líka að auka áhættu annarra á hjarta- og æðasjúkdómum því óbeinar reykingar auka líkurnar um 25-30%.

Með því að stjórna helstu áhættuþáttum má koma í veg fyrir hjarta- og æðasjúkdóma og þannig halda hjartanu heilbrigðu. Góðu fréttirnar eru þær að það er aldrei of seint að tileinka sér heilbrigða lífshætti og viðhalda þannig heilbrigðu og ungu hjarta ævilangt. Með því að fá fólk til að hugsa um hve ungt þeirra hjarta er á Alþjóðlega hjartadaginn vill Hjartavernd hvetja Íslendinga til að taka upp heilbrigða lífshætti. Í tilefni dagsins verður Hjartavernd með opið hús frá klukkan 14-17 þar sem fólki gefst kostur á því að koma í heimsókn og kynna sér starfsemi Hjartaverndar og fá meiri fræðslu um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma. Að auki verður boðið upp á blóðþrýstingsmælingar segir í fréttatilkynningu frá Hjartavernd í tilefni Alþjóðlega-hjartadagsins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *