Haukur Þórðarson er látinn

Kross

HAUKUR D. Þórðarson, fyrrum yfirlæknir á Reykjalundi, lést á heimili sínu 4. október, 77 ára að aldri.

krossHaukur fæddist 3. desember 1928 í Reykjavík, sonur hjónanna Þorgerðar Jónsdóttur húsfreyju og Þórðar Þórðarsonar bónda og verkamanns.

Haukur ÞórðarsonHaukur kvæntist Aðalheiði Magnúsdóttur sérkennara og eignuðust þau fjögur börn. Þau skildu. Hann gekk síðar að eiga Maríu Guðmundsdóttur hjúkrunarfræðing og gekk dóttur hennar í föðurstað.

Haukur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1949, lauk námi í læknisfræði við Háskóla Íslands 1956 og stundaði sérnám í Svíþjóð 1958 og á sjúkrahúsum tilheyrandi New York University Medical Center 1959 – 1962. Hann tók amerískt sérfræðipróf í orku- og endurhæfingarlækningum 1962. Sama ár fékk hann sérfræðileyfi á Íslandi í þeirri grein, fyrstur Íslendinga, og varð brautryðjandi á sviði endurhæfingar hér á landi. Hann starfaði síðan við endurhæfingar á Reykjalundi frá 1962, sem aðstoðaryfirlæknir frá 1966 og yfirlæknir frá 1970, þar til hann lét af störfum 1999. Hann var einnig yfirlæknir á endurhæfingardeild Landspítala, í hlutastarfi, 1970 – 1980, starfaði fyrir Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra og var yfirlæknir Æfingastöðvar SLF ásamt því að kenna endurhæfingarfræði við læknadeild Háskóla Íslands 1975 – 1989.

Haukur var auk þess mjög virkur í félagsmálum og átti sæti í stjórnum margra félaga, stofnana og nefnda sem unnu að framgangi endurhæfingar og málefnum fatlaðra. Hann sat m.a. í stjórn SÍBS frá 1986 og var formaður frá 1990 – 2004. Haukur var jafnframt í stjórn Læknafélags Íslands frá 1983 – 1991, sem formaður frá 1985, og ennfremur var hann formaður Öryrkjabandalags Íslands frá 1997-1999. Morgunblaðið fimmtudaginn 5. október 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *