Aukinn stuðningur við foreldra sjúkra barna

Ráðherra í hópi fulltrúa Sjónarhóls, Umhyggju og embættismanna í ráðuneytinu í morgun

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að ferðastyrkur vegna sjúkdómsmeðferðar barna í útlöndunum komi í hlut beggja foreldra.

Ráðherra í hópi fulltrúa Sjónarhóls, Umhyggju og embættismanna í ráðuneytinu í morgunSiv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, kynnti í morgun fulltrúum Sjónarhóls og Umhyggju, félags sem vinnur að bættum hag sjúkra barna og fjölskyldna þeirra, breytingar á reglugerð um ferðastyrki vegna brýnnar sjúkdómsmeðferðar í útlöndum.

Við sama tækifæri undirritaði ráðherra hina nýju reglugerð. Í reglugerðarbreytingunni felst að ætíð verður greitt fyrir tvo fylgdarmenn, og ekki einn eins og verið hefur í mörgum tilvikum, þegar barn er sent utan í sjúkdómsmeðferð. Á árinu 2005 var greiddur ferðastyrkur og uppihaldskostnaður fyrir 55 börn sem fengu meðferð á erlendum sjúkrahúsum í Bandaríkjunum og Svíþjóð. Greiddur var ferðastyrkur fyrir báða foreldra í 28 tilfellum, en með reglugerðarbreytingunni nú fá báðir foreldrar ferðastyrk og tvöfaldast þannig sá fjöldi foreldra sem nú nýtur styrkjanna.

Styrkir til beggja foreldra hefur verið baráttumál hjá Umhyggju og hjá foreldrum langveikra barna og lýstu fulltrúar Sjónarhóls og Umhyggju mikilli ánægju sinni með breytinguna þegar ráðherra kynnti fulltrúum félagsins hana í morgun.

Réttarbótin sem í reglugerðinni felst gagnast m.a. foreldrum barna með missmíð á andliti eða eyrum, þeirra barna sem þurfa kuðungsígræðslu, og eru með skarð í vör og góm. Þá eru báðir foreldrar barna styrktir sem þurfa í flóknar rannsóknir, leisimeðferð, eru með æðamissmíð í útlimum eða eru merggjafar. Reglugerðin tekur þegar gildi.

Fréttir frá heibrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu 3. nóvember 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *